Búið var að fastsetja milljarðana fjóra
„Munu þeir 1.1 milljarður króna sem draga á til baka á fjárlögum vera til ráðstöfunar síðar á árinu?“
Friðrik Sigurðsson, fulltrúi Landssamtakanna Þroskahjálpar í nefnd um endurskoðun almannatrygginga, skrifar opið bréf:
Willum Þór, Steinunn Þóra‚ Ásmundur Friðriks.
Sæl öll þrjú.
Í mörg ár hef ég í samvinnu við marga aðra reynt að ná ásættanlegri niðurstöðu um hvernig eigi að tryggja framfærslu fólks sem vegna skerðinga eða langvinnra sjúkdóma þarf að reiða sig fyrst og fremst á bætur almannatrygginga sér til framfærslu. Umræðurnar hafa þó gjarnan snúist að stærstum hluta um önnur tilbrigði við það stef eins og skerðingar vegna annarra tekna, starfsgetumat eða ekki starfsgetumat, hlutarbætur eða ekki, svo eitthvað sé nefnt.
Meðan menn hafa deilt um þessa hluti hefur ríkt ástand sem ekki er samfélaginu sæmandi, að mínu mati. Reynt hefur verið að þvinga fram niðurstöðu varðandi upptöku starfsgetumats með því að innleiða ekki sanngjarnar breytingar á lífeyri öryrkja.
Í hverjum mánuði hefur m.a. fólk með þroskahömlun verið að fá lægri greiðslu sér til framfærslu en samkomulag var um í febrúar 2016, m.a. vegna þess að aldurstengd uppbót hefur ekki virkað eins og ráð var fyrir gert og samkomulag var um.
Nú er þannig komið í okkar góða samfélagi að grunnbætur öryrkja eru 30.000 kr. lægri en atvinnuleysisbætur. Það er nýtt og hefur ekki verið útskýrt hvaða rök liggja þar að baki. Það að missa atvinnu er ekki léttvægt en vonandi er þar um tímabundin vanda að ræða meðan stærsti hluti fólks á örorkubótum þarf að reiða sig á þær um lengri tíma og margir alla ævi.
Í nefnd þeirri sem að undanförnu hefur setið á rökstólum hefur verið rætt um að fastir í hendi væru 4 milljarðar kr. umfram verðlagsforsendur og kostnað vegna fjölgunar öryrkja. Það hefur einnig legið í loftinu að það þyrfti meiri peninga inn í kerfið til að hægt væri að ná einhverri sátt.
Undirritaður hefur oftar en einu sinni lagt það til í umræddri nefnd að bætur til öryrkja yrðu hækkaðar verulega ekki seinna en 1. janúar 2019 á þeim forsendum að þar sem um er að ræða greiðslur til þeirra sem nú þegar hafa verið metnir sem öryrkjar og eru því óháðir niðurstöðu nefndarinnar um starfsgetumat og hlutabætur þar sem slíkar breytingar verði ekki gerðar með afturvirkum hætti. Slíkt gæti einnig hugsanlega stuðlað að sátt um áframhaldandi vinnu.
Nú hafa þær fáheyrðu fréttir borist að framlög vegna örorkubóta hafi verið lækkuð í meðferð fjárlaganefndar um 1.1 milljarð kr. Ástæða þessa niðurskurðar hefur verið skýrður með því m.a að niðurstaða liggi ekki fyrir um framtíðarskipulag bótakerfisins og að „hagkerfið sé að kólna“. Þið vonandi fyrirgefið mér það að skilja ekki alveg hvers vegna það að draga úr greiðslum vegna örorkubóta sé sérstaklega vel til þess fallið að vera mótvægi við kólnandi hagkerfi.
Ég fyrir hönd Landssamtakanna Þroskahjálpar óska því skýringa á þessu og spyr:
- Hvaða breytingar eru fyrirhugaðar á greiðslum örorkulífeyris 1.1. 2019?
- Munu þeir 1.1 milljarður króna sem draga á til baka á fjárlögum vera til ráðstöfunar síðar á árinu ?
- Teljið þið ástæðu til að halda áfram starfi nefndar um endurskoðun almannatrygginga og þá á hvaða forsendum?
Með kveðju og ósk um skjót svör,
Friðrik Sigurðsson, fulltrúi Landssamtakanna Þroskahjálpar í nefnd um endurskoðun almannatrygginga.