Samfélag BSRB hefur sent frá sér harðorðaða ályktun vegna áforma Kristjáns Þórs Júlíussonar um að bjóða út rekstur heilsugæslustöðva.
„Ljóst þykir að til standi að auka aðkomu einkaaðila að rekstri heilbrigðisþjónustunnar og það hyggst heilbrigðisráðherra gera án þess að ræða málið sérstaklega á Alþingi eða fara að vilja almennings í þeim efnum.“
Ekki vilji almennings
BSRB segir landsmenn hafa í skoðanakönnunum ítrekað lýst yfir víðrækum stuðningi við félagslegt heilbrigðiskerfi og hafnað leiðum einkavæðingar. „Í rannsókn prófessors Rúnars Vilhjálmssonar sem framkvæmd var af Félagsvísindastofnun fyrr á árinu kom fram að rúm 80% svarenda telja að hið opinbera eigi fyrst og fremst að koma að rekstri heilsugæslustöðva á meðan aðeins 1% taldi slíkum rekstri best komið fyrir hjá einkaaðilum.“
Félagsleg kerfi eru betri
„Vilji landsmanna er skýr: að hið opinbera eigi og sjái um rekstur heilbrigðisþjónustu á landinu. Þótt hugmyndafræði heilbrigðisráðherra gangi út á að auka skilvirkni og hagræði hefur reynsla víða annars staðar frá sýnt fram á hið gagnstæða. Rannsóknir og samanburður á ólíku fyrirkomulagi heilbrigðisþjónustu hefur jafnframt sýnt að félagslegu heilbrigðiskerfin – líkt og það sem við búum nú við – stuðla að bættri lýðheilsu, jafnara aðgengi að þjónustunni og eru þar að auki hagkvæmari í rekstri en einkareknu kerfin.“
Hagnaðinn á rétta staði
„Þess vegna leggst stjórn BSRB alfarið gegn áformum heilbrigðisráðherra. Heilsa fólks og heilbrigði getur aldrei orðið eins og aðrar vörur á markaði. Það á að vera skýrt og yfirlýst markmið stjórnvalda að allur mögulegur „hagnaður“ af rekstri heilbrigðisþjónustu eigi að fara til frekari uppbyggingar heilbrigðisþjónustunnar en ekki enda í vasa einkaaðila,“ segir í ályktun BSRB.