„Ég hef aldrei almennilega skilið af hverju við erum að kjósa forseta meðan fyrirkomulag okkar stjórnskipunar er þingræði. Það er bitamunur en ekki fjár að kjósa vinsælasta manninn í partýinu sem þjóðhöfðingja en að djobbið gangi í erfðir hjá mektarfjölskyldu,“ skrifar þingmaðurinn Brynjar Níelsson.
Guðmundur Ólafsson hagfræðingur benti Brynjari á að hér sé frekar flokksræði en lýðræði.
Áfram með Brynjar: „Svo er óheyrilega þreytandi að upplifa reglulega forsetakosningar þar sem frambjóðendur eru að lofa hinu og þessu fyrir kjósendur sem er ekki í þeirra valdi að efna. Nóg er að slíkum loforðum í venjulegum þingkosningum.“
Svo leggur Brynjar fram eftirfarandi tillögu: „Legg til að embættið verði aflagt um leið og við komum fyrir í stjórnarskránni ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu. Nema að við viljum taka upp stjórnskipunar fyrirkomulag að hætti Frakka og Bandaríkjamanna, sem er að vísu aðeins viðameiri breyting. Veit að ég er í minnihluta með þessa skoðun.“
Brynjar endar skrif sín með fimmaurabrandara: „Merkilegt hvað mínar snjöllu hugmyndir fá alltaf litlar undirtektir.“