„Það er markaður í þessu kerfi. Þeir sem fengu hér úthlutað á grundvelli veiðireynslu 1983 eru nánast allir horfnir. Þetta hefur allt gengið kaupum og sölum. Þeir sem hafa talið sig geta gert enn betur hafa keypt kvóta og stundað útgerð og sumir staðið sig bara frábærlega,“ sagði Brynjar Níelsson í þingræðu, þegar rætt var um kvótakerfið.
„Orðin eins og „stela auðlindinni af okkur“, „gjafakvóti“, þetta er allt rangt. Meðan umræðan er enn þá á þessu stigi, jafnvel í þessum þingsal og þegar fólk sem nýtur virðingar úti í samfélaginu talar svona líka, jafnvel guðsmenn, þá er auðvitað ekki von á góðu. En ég er alveg tilbúinn að taka umræðuna. Ég er ekkert að segja að þetta sé fullkomið kerfi og að það kunni ekki að verða einhverjar breytingar. Þá eiga menn auðvitað bara að sannfæra mig um að þær séu til batnaðar.“
„Ég hef oft sagt að þessi háu veiðigjöld sem hafa verið lengi og voru náttúrlega enn hærri, þ.e. fyrir 2013, valdi því að minni útgerðir eigi ekki fyrir þessu gjaldi, eigi ekki fyrir þessum skatti. Það er enginn arður af útgerð með þeim hætti. En stórútgerðir sem hafa líka hagnað af ýmissi annarri starfsemi geta borgað þetta. Mér finnst það ekki eðlilegt ástand. Ég get alveg sagt að jú, jú 12% þak, ef það er einhver misbrestur á því þurfum við auðvitað bara að laga það og ef við ætlum að hafa þakið 12% eða 10% eða 14% eða hvaða þak sem við ætlum að hafa. „Whatever“, eins og menn segja á útlensku. En þetta er kerfi sem hefur nýst okkur afskaplega vel,“ sagði Brynjar.