Brynjar ósáttur við Styrmi
„Fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins fer gjarnan hörðum orðum um sjálfstökuliðið í launum, ekki síst þingmenn. Hamrar hann stöðugt á hækkun þingfararkaups og heldur því fram að þingmenn hafi hækkað umfram aðra. Neitar hann í þeim samanburði og horfa til þess að þingmenn lækkuðu um 15% 2009, frystingu launa þeirra næstu ár á eftir og ekki vill hann heldur taka tillit til lækkunar starfskostnaðar þegar stóra hækkunin kom 2016. Gott og vel, mönnum má finnast þingfarakaup upp á 1.1 milljón alltof há laun og sjálftaka,“ skrifar Brynjar Níelsson.
„Því er fróðlegt að líta á gömul tekjublöð um tekjur fyrrum ritstjórans, t.d. þegar hann var upp á sitt besta á árinu 1997. Þá var hann með á mánuði rúmar 1.3 milljónir. Sæti hann enn í þeim stól og launin fylgt launavísitölu væri hann með tæpar 5.3 milljónir á mánuði í dag. Og ef við miðum við neysluverðsvísitölu væri hann ekki með nema um 3.3 milljónir á mánuði. Mér skilst að íslenskt samfélag hafi ekki verið eins rotið og spillt í þá daga og áhrifamenn í miklu meiri tengslum við almúgann en nú er.“