Brynjar Níelsson, einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, greinir frá ferðalagi til Skotlands, þar sem hann var greinilega í félagsskap sem honum þykir mikið til koma.
Brynjar tekur á sig krók til að hnýta í Semu Erlu Serdar.
Brynjar skrifar á Facebook:
„Skrapp í stutta ferð til Skotlands um helgina með gömlum félögum. Margir af þeim eru miklir heimsborgarar og taldir með gáfuðustu mönnum landsins. Samt skildu þeir ekkert í því af hverju ekki var í boði nautakjöt á indverska veitingastaðnum í Carnoustie.“
Og svo nær hann til Semu Erlu:
„Skrítið að koma heim í faðm froðufellandi andfasistana yfir sigri ungrar gyðingastúlku frá Ísrael í júróvisjón sönglagakeppninni. Hvar værum við stödd ef við hefðum ekki Semu Erlu og aðra vinstri menn til að leiðbeina okkur í baráttunni gegn fasisma og rasisma? Hver yrði refsingin í fasista- og rasistalausu samfélagi Semu Erlu fyrir að panta nautakjöt á indverskum veitingastað? Geta menn borið fyrir sig fávisku eða gleymsku eða jafnvel að hafa ekki verið allsgáðir. Hlýtur að vera því íslensku andfasistarnir eru svo umburðarlyndir og lausir við ofstæki.“