„Nú er svo komið að blaðamenn þora ekki að spyrja mig um nokkurn skapaðan hlut af ótta við að ég taki hárblásarann á þá. Hef heimildir fyrir því að geðvonskuköst mín valdi kvíða hjá blaðamönnum og þyki líkleg að leiða til kulnunar í starfi,“ skrifar þingmaðurinn Brynjar Níelsson, Sjálfstæðisflokki.
„Ég útskýrði síðustu færslu mína á fésbókinni í Bítinu í gærmorgun og á fésbókarvegg Jakobs Bjarnar, hins knáa blaðamanns á Visi.is. Það truflar mig ekki þótt blaðamenn spyrji mig spurninga um persónuleg mál mín. Þeir gera það reglulega og stundum fer ég í viðtöl beinlínis í þeim tilgangi að ræða persónuleg málefni. En þegar blaðamenn senda mér tölvupóst og ætlast til þess að ég svari slíkum spurningum á grundvelli þess að ég sé þingmaður (og þar með afsalað mér friðhelgi einkalífs) tek ég fram hárblásarann á vægri stillingu.
Blaðamaðurinn svaraði fyrir sig í Bítinu í morgun. Náði engum þræði í þeirri frásögn og virðist sem tölvupóstsamskipti okkar hafi verið eintómur misskilningur, líklega vegna ólíkrar kímnigáfu eða skorti á henni. En blaðamaðurinn, sem er kona, kom með vinsæla skýringu á geðvonskukasti mínu. Það er auðvitað vegna þess að hún er kona. Eru engin takmörk fyrir því hvað hægt er að leika mikil fórnarlömb? Veit að ég get verið truntulegur en þar sem ég er raunverulegur jafnréttissinni hef ég passað sérstaklega upp á að vera jafn truntulegur við bæði kynin.
Svo ætla ég að nota tækifærið og koma eftirfarandi skilaboðum til blaðamanna, af báðum kynjum, hyggist þeir senda mér spurningar á tölvupósti: Ef ég svara ekki er það vegna þess að ég ætla ekki að svara. Ef þið sendið ítrekun og krefjist svars því ég sé þingmaður án einkalífs fáið þið hárblásarann beint í smettið. Getur að vísu farið eftir því hvernig liggur á mér hverju sinni,“ svo voru þau mörg þingmannsins Brynjars.