Bryndís Haraldsdóttir, sem situr í utanríkismálanefnd fyrir flokk sinn, Sjálfstæðisflokksins, nánast hæðist að Davíð Oddssyni og skoðanabræðrum hans í Moggagrein í dag. Tilefnið er orkupakkinn.
Grein Bryndísar hefst með nettu skoti, með sannleikskorni:
„Sumum þykir betra að sjá fortíðina í hillingum og finna samtíðinni margt til foráttu. Sumir ala á ótta yfir því óvænta og ófyrirsjáanlega og líta á framtíð sem ógnun við óbreytt ástand. Sumir segja að allt hafi verið betra í gamla daga.
Við erum fljót að gleyma, ýmis vandamál samtíðar fortíðarinnar heyra sögunni til og gleymast í skugga nýrra vandamála samtíðar samtímans, vandamála nýrra tíma. Ákvarðanir teknar í fortíðinni skapa umhverfið sem við búum við í dag, og ákvarðanir dagsins í dag móta framtíðina.“
Bryndís linar ekki tökin: „Í gamla daga gengum við í EES-samstarfið, og í gamla daga samþykktum við að orkan heyrði undir samninginn. Í gamla daga samþykktum við orkupakka eitt og tvö, og var það íslensku samfélagi mikil blessun. Með raforkulögunum frá 2003 var innleitt nýtt skipulag raforkuviðskipta hér á landi, raforkuvinnsla og sala raforku var gefin frjáls og í dag keppa nokkur fyrirtæki á þeim markaði, og fer þeim fjölgandi.“
Bryndís færir síðan rök fyrir afstöðu þingflokksins, sem allur stendur að baki orkupakkanum. Greinina endar hún síðan svona:
„Ekkert í þriðja orkupakkanum er af því tagi að þörf sé á að grípa til neyðarráðstafana á borð við að hafna honum og vísa aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Það er ástæðulaust að óttast framtíðina. Ég treysti Íslendingum dagsins í dag, og morgundagsins, til þess að stíga inn í hið óorðna með hugrekki og þor.“