Brusselvaldið hlær af Íslendingum
„Þeir munu líka hrinda þjóðareigninni á Landsvirkjun, henni verður skipt upp og hlutir hennar seldir.“
Guðni Ágústsson er meðal þeirra sem berjast gegn þriðja orkupakkanum. Og sparar sig hvergi.
„Alþingi ber nú að grípa inn í jarðakaup útlendinga því heilu héruðin eru að falla auðmönnum, erlendum og innlendum, í skaut. Hvers vegna? Það eru átökin um yfirráðin á orku, virkjunum, vatni og landi. Brussel-valdið er búið að hlæja sig máttlaust að þessu séríslenska ákvæði sem oft hefur verið nefnt áður. Það er notað til heimabrúks á Íslandi, segja þeir. Sannleikurinn er þessi, utanríkisráðherranum verður ekkert gagn af beltinu og axlaböndunum, buxurnar eru nefnilega úr híalíni. Ég hvet bæði Alþingi og ríkisstjórn til að skoða málin af gaumgæfni, hverjar verða afleiðingarnar af samþykkt orkupakkans? Og við eigum þann rétt sem þjóð að hafna því að taka pakkann upp, það liggur fyrir í EES-samningi,“ segir hann meðal annars í langri Moggagrein í dag.
„Nú kallar Þorsteinn Pálsson, fv. forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, kúnstir utanríkisráðherrans „lofsverðar blekkingar“ og bætir við: „Hann á fullt lof skilið fyrir vikið.“ Svona breytast viðhorf manna þegar þeir hafa tekið trúna. Ólíkt hafast þeir að nú, Þorsteinn og Jón Baldvin.“
Guðni kemur víðar við. Á einum stað segir hann: „Þeir munu líka hrinda þjóðareigninni á Landsvirkjun, henni verður skipt upp og hlutir hennar seldir.“
Og hann varar núverandi forystu Framsóknarflokksins við: „Nú skal málið keyrt áfram og spurningin er, hvað gera framsóknarmenn og vinstri grænir? Ganga þeir í humátt, hljóðir og prúðir, og vona að flokksmenn gleymi strax svona undanslætti frá stefnu flokkanna. Gáið að ykkur, Sigurður Ingi Jóhannsson og Lilja Alfreðsdóttir.“