„Mennta- og menningarmálaráðherra (M&m) hélt upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna með því að áfrýja máli sem hún hafði tapað í héraðsdómi til Landsréttar. Málið höfðaði ráðherra á hendur kynsystur sinni sem hafði skotið ráðningu á pólitískum samverkamanni ráðherrans í embætti ráðuneytisstjóra til kærunefndar jafnréttismála. Úrskurður kærunefndar sem héraðsdómur hefur nú staðfest er sá að M&m hafi brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga og komst ráðherra þar með í þröngan hóp þeirra ráðherra íslenskra sem brotið hafa þau lög, standi dómur héraðsdóms. Eins og alþjóð veit hefur enginn brotlegu ráðherranna þurft að bera ábyrgð á lögbrotum sínum til þessa. Eflaust verður það sama upp á teningnum gagnvart M&m sem með áfrýjuninni hefur keypt sér tíma fram yfir kosningar því nær útilokað er að Landsréttur kveði upp úrskurð sinn fyrir septemberlok,“ skrifar Þorsteinn Sæmundsson í Mogga dagsins.
„Hér er um ójafnan leik að ræða þar sem ráðist er með fullum þunga ríkissjóðs að konu sem ekkert hefur til saka unnið annað en að sækja um starf og vera talin hæfust til að gegna því. M&m leggur töluverðan útgjaldaauka á ríkissjóð með því að draga málið á langinn og gerir hlut sinn í málinu enn alvarlegri. Enn um sinn verður áðurnefnd kona að eyða tíma og fjármunum (alla vega tímabundið) í að verjast atlögu ráðherrans sem þolir ekki að tapa. Vonandi fær þetta óheillamál flýtimeðferð fyrir Landsrétti.“