- Advertisement -

Breyttir tímar í vekalýðshreyfingunni

Svört atvinnustarfsemi er þjófnaður. Hvað meina Katrín og Bjarni? Fólk veigrar sér við að leita læknis vegna hárrar gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu. Nú hefur verka- og láglaunafólk fengið nóg. „Þar vilja áhrifaöfl í verkalýðshreyfingunni, stýrt af byltingarfólki með takmarkað umboð á bak við sig.“ Lágmarkslaun verkafólks hafa hækkað á 20 árum um einungis 230 þúsund.

Sigurjón M. Egilsson.

„Allir sem svindla á réttindum launafólks stela,“ segir á Facebooksíðu Alþýðusambands Íslands.
Þar segir einnig: „Svört atvinnustarfsemi er þjófnaður. Undirboð, jafnaðarkaup og alls kyns undirferli er svindl. Sá sem blekkir erlent vinnuafl og pínir það íslenska í sömu kjör stelur. Þetta er þjófnaður frá samfélaginu og um leið frá þér. Við erum öll háð því að farið sé að lögum og kjarasamningar virtir. Öðru vísi er leikurinn svo ótrúlega ójafn. Við eigum sameiginlegan rétt sem þjófarnir ógna og geta jafnvel rústað.“

Það virðist kominn nýr og ákveðnari tónn í forystufólk innan verkalýðshreyfingarinnar. Þar hafa orðið breytingar. Mestu munar eflaust um formannskjör Sólveigar Önnu Jónsdóttur í Eflingu. Áður hafði Ragnar Þór Ingólfsson sigraði í samskonar kjöri innan VR. Bæði tvö, Ragnar Þór og Sólveig Anna komu í stað fyrrverandi varaforseta Alþýðusambands Íslands. Afleiðingar þess virðast vera breið gjá á milli forystu Alþýðusambandsins og svo formanna nokkurra annarra félaga, svo sem VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness og svo Framsýnar á Húsavík.

Hér var byrjað á að vitna til Alþýðusambandsins sem virðist hafa hert eigin málflutning. Halda má að fólk þar á bæ lesi stöðuna sem svo að betra sé að koma í humátt á eftir Ragnari Þór, Sólveigu Önnu, Vilhjálmi Birgissyni og Aðalsteini Baldurssyni og jafnvel fleirum, frekar en að berjast gegn öllu sem þau segja og gera. Meira um það á eftir.

Byltingarfólk með takmarkað umboð

Andstæðingar launafólks þétta raðirnar og búa sig undir átök, átök sem þeir þekkja ekki nema af sögubókum. Eins sést átakalína innan hreyfingarinnar. Móðurskipið, það er ASÍ, óttast þá leið sem „fjórmenningarnir“ vilja fara og varar við henni. ASÍ er ekki eitt um það. Fréttablaðið tekur ákveðna stöðu til þessa máls. Í leiðara blaðsins, sem Hörður Ægisson skrifaði, er tekin ákveðin afstaða gegn verkafólki og launþegum. Skoðum þetta aðeins:

Fjórmenningarnir: Ragnar Þór Ingólfsson VR, Sólveig Anna Jónsdóttir Eflingu, Vilhjálmur Birgisson, Verkalýðsfélagi Akraness og Aðalsteinn Árni Baldursson Framsýn, hafa boðað nýja stefnu í baráttunni á vinnumarkaði. „Nei, við ætlum ekki í allherjarverkföll. Allsherjarverkföll eru úrheld. Við tæmum sjóðina okkar á nokkrum dögum eða vikum ef við gerðum það. En hvað ætlum við þá að gera? Við förum í skærur.“

„Staðan í þjóðarbúskapnum er samt um margt brothætt um þessar mundir. Ísland er líklega orðið dýrasta land í heimi. Þar spilar ekki síst inn í sú staðreynd að launakostnaður fyrirtækja, mældur í erlendri mynt, hefur hækkað margfalt meira en í öðrum OECD-ríkjum frá 2010. Afleiðingin er sú að samkeppnisstaða útflutningsgreina, meðal annars ferðaþjónustunnar, hefur rýrnað stórkostlega. Niðurstaða komandi kjarasamninga á almennum vinnumarkaði mun ráða miklu um hvort framhald verði á þessari ískyggilegu þróun. Þar vilja áhrifaöfl í verkalýðshreyfingunni, stýrt af byltingarfólki með takmarkað umboð á bak við sig, efna til átaka við allt og alla og tefla á tæpasta vað. Nái þau sínu fram þarf ekki að spyrja að leikslokum.“

Þarna eru slegnir tónar sem munu verða margslegnir. Það er nánast ósanngjarnt og óþolandi að samtök launafólks og félög þeirra skuli þurfa að eyða orku og tíma til að verjast innihaldslausum og fullkomlega ómarktækum meðaltölum. Og svo hitt, andstæðingar launafólks, klifa á og munu herða þann áróður, að það fólk sem nú hefur valist til forystu, hafi takmarkað umboð, sem auðvitað er kolrangt. Hvað sem hverju og einu okkar kann að finnast er búið að gefa tóninn. Baráttan er framundan.

Ekki bara kaupmáttur

Auglýsingaherferð Alþýðusambands hefur farið illa í fjórmenningana. „Nú hefur verka- og láglaunafólk fengið nóg. Það hefur tekið að láta í sér heyra. Það hefur kosið til forystu í sínum verkalýðsfélögum fólk sem hefur heitið því að láta kjör þess sig öllu varða í komandi kjarasamningum. Það hafa vaknað vonir um að loks sé komið tækifæri til að leiðrétta, með sjónarmið réttlætis og jöfnuðar að leiðarljósi, óásættanleg laun, óréttlátt skattkerfi og skelfilega vaxta- og skuldpíningu fjármálakerfisins, svo dæmi séu tekin af þeim málum sem helst brenna á íslenskri alþýðu,“ skrifar Sólveig Anna, formaður Eflingar, um auglýsingaherferðina.

Og hún sendir forystu ASÍ tóninn: „En þá bregður svo stórkostlega undarlega við að í stað þess að gleðjast og fylkja sér að baki kröfum um að reynt verði að vinna að efnahagslegu réttlæti á hinu stéttskipta Íslandi ákveður forysta ASÍ að taka afstöðu gegn öðrum talsmönnum verka- og láglaunafólks og senda frá sér áróðursefni sem augljóslega er beint gegn þeim háværu kröfum um jöfnuð sem hér hafa hljómað, áróðursefni sem dregur upp þá mynd að best sé fyrir allt þjóðfélagið að raddir þeirra sem tilheyra lægri stéttunum þagni alveg, áróðursefni sem málar þá mynd af samtímanum að krónur skipti ekki lengur neinu máli, aðeins svokallaður kaupmáttur, en skautar alveg fram hjá spurningunni sem augljóslega hlýtur að vakna hjá hinum vinnandi stéttum við áhorfið: Ef krónur skipta engu máli, hvernig stendur þá á því að hin auðugu virðast aldrei nokkurn tímann fá nóg og þurfa ótrúlegar hrúgur af þeim, svo stórar að þeim endist ekki ævin til að eyða þeim?“

Í þessum skrifum opinberast hver og hvar átökin innan hreyfingarinnar liggja. Augljóst virðist vera að það er klofningur meðal launafólks.

Rót reiðinnar

Gylfi Arnbjörnsson: „Ástæðan er sú að stjórnvöld hafa með aðgerðum sínum og aðgerðaleysi á undanförnum árum hirt lungann af þeim ávinningi sem kjarasamningar hafa tryggt þeim tekjulægstu.“

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, skrifaði:

„Að undanförnu hafa birst á samfélagsmiðlum stutt myndbönd frá ASÍ þar sem fjallað er um þær áskoranir sem launafólk stendur frammi fyrir á íslenskum vinnumarkaði. Eitt þeirra fjallar um rót reiðinnar sem ríkir í samfélaginu vegna misskiptingar. Þar er því er meðal annars haldið fram að oft sé ríkið versti óvinur launafólksins. Þrátt fyrir að verkalýðshreyfingunni hafi með samstöðu sinni tekist að hækka lægstu laun umtalsvert á síðustu árum, hækkun sem er langt umfram almenna launaþróun, hefur það ekki leitt til þeirra bættu lífskjara sem að var stefnt. Ástæðan er sú að stjórnvöld hafa með aðgerðum sínum og aðgerðaleysi á undanförnum árum hirt lungann af þeim ávinningi sem kjarasamningar hafa tryggt þeim tekjulægstu.“

Þarna kann hundurinn að vera grafinn. Má vera að nýju fólki þyki forysta ASÍ ekki hafa staðið nægilega vel í fæturna gegn óvild ríkisvaldsins? Og er Gylfi jafnvel að játa það hér?

„Við erum að tala um skerðingu skattleysismarka, lækkun barnabóta, lækkun vaxta- og húsnæðisbóta á sama tíma og fasteignaverð og húsaleiga hækkar. Fólk veigrar sér við að leita læknis vegna hárrar gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu. Skerðingar á greiðslum almannatrygginga með miklum tekjutengingum gagnvart greiðslum lífeyrissjóðanna eru enn eitt dæmið um hvernig ríkið hefur höggvið þar sem síst skyldi. Sjálftaka ofurlaunaaðalsins á svimandi launahækkunum magnar hina réttlátu reiði enn frekar,“ skrifar Gylfi áfram.

Sú mynd sem forseti ASÍ dregur þarna upp er ekki björt. Hvaða aðferðum á að beita geng þessu kann að valda sundrungu innan hreyfingarinnar.

En hvar liggur ábyrgðin?

„Stjórnmálamenn bera á þessu fulla ábyrgð. Krafan um að þeir og dekurbörnin þeirra deili kjörum með þjóðinni er krafa um réttlæti og jöfnuð. Í áætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára stendur ekki til að rétta hag þeirra lægst launuðu þegar kemur að velferðar- og skattamálum. Tillaga ASÍ var samstaða um nýjan þjóðarsáttmála, þar sem auknum tekjum ríkis og sveitarfélaga af hagvexti yrði varið til eflingar velferðar- og félagsmála. Því miður var ríkisstjórnin, undir forsæti VG, ekki tilbúin til þess og því var miðstjórn ASÍ nauðugur sá kostur að hafna þátttöku í þjóðhagsráði. Skilaboð ASÍ eru skýr. Um þennan ramma verða átök því það er verið að ganga freklega á hagsmuni launafólks í landinu. Við það verður ekki unað.“

Um afstöðu forystu ASÍ, og endurteknar auglýsingar hennar, skrifar Sólveig Anna: „Er ekki tímabært að forysta ASÍ sjái sóma sinn í því að halda sér til hlés þegar svo er komið að enginn samhljómur er lengur á milli hennar og verkafólks? Eða er virkilega ætlast til þess að verkafólk sætti sig við að búa í samfélagi þar sem ekki er augljóst hvor talar; forseti Alþýðusambands Íslands eða talsmaður Samtaka atvinnulífsins?“

Ragnar Þór Ingólfsson: „Verkalýðsforystan hefur brugðist á svo margvíslegan hátt á síðustu árum og áratugum.“

„Við förum í skærur“

Af því sem stendur hér að ofan, sést að þar opinberast talsverður meiningarmunur milli þeirra sem lengi hafa setið og þess fólks sem er ný sest til að leiða baráttu launafólks. Nýja fólkið boðar átök, verkföll og skærur.

Skoðum hluta af ræðu Ragnars Þórs á 1. maí í ár.

„Verkalýðsforystan hefur brugðist á svo margvíslegan hátt á síðustu árum og áratugum. Það versta er kannski það hvernig henni tókst að breiða sængina upp fyrir haus þegar harðast var sótt að fólki í eftirmálum hrunsins. Og hvernig stjórnvöld hafa kerfisbundiði tekið til sín kaupmáttarkrónur í gegnum skattkerfið og tekjutengingu bóta. Nú verður breyting þar á.

Undanfarið hefur átt sér stað mikil endurnýjun og nýliðun innan okkar raða og ljóst að miklar væntingar eru hjá okkar félagsmönnum. Það verður mikil áskorun að standa undir þeim væntingum.

Baráttan sem við stöndum frami fyrir mun standa og falla með fólkinu. Ekki hvort einhverjir verkalýðsforingjar geti úðað í sig vöfflum með rjóma út á kinnar í góðri sátt um hvaða brauðmolahagfræði virkar best þann daginn. Við erum sterkari saman. Það er rétt! En við verðum aldrei sterkari en fólkið sem er tilbúið að fylgja okkur í þá vegferð sem framundan er.

Við höfum verið að hittast fjórmenningarnir úr VR, Eflingu, Verkalýðsfélagi Akranes og Framsýn á Húsavík. Ég var beðin um að skila fundinum baráttukveðjur frá Sólveigu, Villa og Aðalsteini.

Við höfum einnig verið að tala við fleiri úr okkar röðum og get ég sagt ykkur það að baráttuandinn er hrikalega góður og samstaðan er mikil. Ég vil taka það sérstaklega fram að samningsumboðið er hjá okkur félögunum og talar forseti ASÍ ekki í umboði okkar. Hvorki gagnvart stjórnvöldum né samtökum atvinnulífsins.

Ég get sagt ykkur það kæru félagar að það eru breytingar framundan. Ný ásýnd hreyfingar með nýju fólki og nýjum áherslum. Hreyfing sem ætlar að standa í lappirnar.

Við boðum baráttu sem hefur ekki sést í íslenskri verkalýðshreyfingu í áratugi!
Við munum berjast fyrir kerfisbreytingum! Við erum að tala um baráttu gegn verðtryggingu og fyrir lækkun vaxta, breytingar á skattkerfinu með áherslu á hækkun persónuafsláttar, regluverk til verndar leigjendum.

Við viljum lög á viðbjóðslega okurlánastarfsemi smálánafyrirtækjanna sem beina kröftum sínum kerfisbundið að þeim sem höllustum fæti standa í okkar samfélagi.

Heilbrigðiskerfið og þjóðarátak í húsnæðismálum!

Það verður ekkert skilið eftir í okkar baráttu sem skiptir ykkur máli. Ykkar kröfur eru okkar baráttumál.
Við erum að tala um krónutöluhækkanir og við erum að tala um breytingar á lífeyrissjóðakerfinu. Við viljum að lífeyrissjóðirnir komi að uppbyggingu á húsnæðismarkaði og að við getum notað hluta iðgjalda til að greiða inn á lánin okkar.

Við ætlum að teikna upp samfélagssáttmála til þriggja eða fjögura ára sem við ætlum að bjóða stjórnvöldum og atvinnulífinu sem hafa stigið trylltasta dansinn í sjálftöku og ofurlaunum. Við ætlum að bjóða sátt. En sú sátt fæst ekki gefins eða með nýju samningamódeli. Sú sátt kostar ekki endilega mikið en mun skila langþráðu trausti á kerfin okkar.

Já, kæru félagar við erum að tala um mörg brýn hagsmunamál þjóðarinnar sem ekki hefur verið leyfilegt að tala um innan verkalýðshreyfingarinnar fyrr en nú.

Hvernig ætlum við að ná þessu fram? Verða allsherjarverföll á næsta ári? Nei, við ætlum ekki í allherjarverkföll. Allsherjarverkföll eru úrheld. Við tæmum sjóðina okkar á nokkrum dögum eða vikum ef við gerðum það. En hvað ætlum við þá að gera?
Við förum í skærur.

Við sendum smærri hópa í verkföll á fullum launum fyrir fjármagnstekjur af sjóðunum okkar. Og við munum gera það þar sem það bítur mest. Það þarf að loka stofnunum ef þær eru ekki ræstar í þrjá daga. Það er hægt að loka uppskipun með því einu að senda nokkra tugi manns í verkfall á fullum launum. Það eru fleiri en flugmenn og flugvirrkjar sem geta lamað hér flugsamgöngur.

Okkur er alvara og það er komin tími á að stjórnvöld og viðsemjendur okkar fari að taka okkur alvarlega ef ekki á illa að fara. Ef við verðum ekki farin að sjá til sólar um næstu áramót um mikilvægar kerfisbreytingar munum við hefja aðgerðir. Við ætlum ekki að bíða fram á næsta vor.

Ég kalla eftir samstöðu ykkar með okkur. Ég kalla eftir því að við sem þjóð stöndum í lappirnar með þeim málum sem við munum leggja fram og fylgi okkur alla leið í þeirri baráttu. Við erum ekki bara sterkari saman við erum ósigrandi ef við stöndum saman.

Við viljum, getum og ætlum.“

Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM, gerir athugasemdir við ummæli Bjarna Benediktssonar og Katrínar Jakobsdóttur.

Hæpið að það standist lög

Ræða Ragnars vakti athygli. Nýr formaður VM, Guðmundur Helgi Þórarinsson, kemur inn á ræðuna og viðbrögð við henni í sínum fyrsta formannspistli í tímariti VM. Guðmundur Helgi skrifar þar meðal annars:

„Nú hafa ráðherrarnir Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir brugðist við góðri 1. maí ræðu Ragnars Þórs Ingólfssonar formanns VR. Bjarni sagði í mbl. 3. maí að kröfur sem heyrðust í ræðu Ragnars snúa að allt öðru „og hafa ekkert með kjarasamninginn að gera, og menn boða verkföll vegna slíkra mála, sýnist mér hæpið að slíkt standist lög og spurning hvort menn eru að berjast á réttum vettvangi. Það er líka hægt að bjóða sig fram til Alþingis, ef menn vilja hafa áhrif þar.“ Þá sagði Katrín í fréttum Stöðvar 2  að hún hefði efasemdir um skilaboð Ragnars og nýrrar forystu verkalýðshreyfingarinnar. Hún sagði baráttu þeirra seilast út fyrir svið kjarabaráttunnar í átt að félagslegum umbótum og félagslegri stefnu sem verði „auðvitað aldrei mótuð annars staðar en hér á lýðræðislega kjörnu Alþingi“. Þá viðraði hún einnig efasemdir um að slíkar aðgerðir og forsendur þeirra stæðust lög. Það er merkilegt að heyra

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, býr sig undir átökin: „Aðilar vinnumarkaðarins verða að halda áfram að feta þá braut sem mörkuð hefur verið við gerð kjarasamninga þannig að þeir styðji við lága verðbólgu og tryggi að kaupmáttur launa haldi áfram að aukast hægt en örugglega.“

ráðamenn þjóðarinnar segja þetta og vitna í lög.“

Lítið svigrúm segir SA

„Aðilar vinnumarkaðarins verða að halda áfram að feta þá braut sem mörkuð hefur verið við gerð kjarasamninga þannig að þeir styðji við lága verðbólgu og tryggi að kaupmáttur launa haldi áfram að aukast hægt en örugglega,“ sagði Eyjólfur Árni Rafnsson í ávarpi á ársfundi Samtaka atvinnulífsins.

Hann og samtökin hans eru ákveðin.

„Haustið 2017 fjölluðu SA ítarlega um hækkun launakostnaðar á Íslandi síðastliðin tvö ár og áhrif á samkeppnisstöðu fyrirtækjanna. Launakostnaður fyrirtækja á Íslandi hafði hækkað um fjörutíu prósent meira en í helstu samkeppnisríkjunum. Að mati SA endurspeglaði hækkunin þverrandi samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og minni getu fyrirtækja til þess að standa undir launahækkunum. Almennur kaupmáttur hafði hækkað um rúmlega 20% á tveimur árum þar sem verðbólga hafði verið lítil vegna hagstæðra skilyrða,“ segir í ársskýrslu Samtaka atvinnulífsins.

Himinn og haf virðist vera milli orðræðu forystufólks launafólks og talsmanna atvinnurekenda. Því er mikil óvissa framundan.

Misskiptingin er mikil

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélag Akraness, tók saman dæmi um misskiptinguna. Það er best að gefa honum orðið:

Það er óhætt að segja að enn og aftur hafi gripið um sig taumlaus og botnlaus græðgi hjá stjórnendum íslenskra fyrirtækja og hjá ríki og sveitafélögum á liðnum misserum eins og upplýst hefur verið í fréttum á liðnum dögum og vikum þar sem fram hafa komið upplýsingar um gríðarlegar launahækkanir stjórnenda, hækkanir sem nema oft á tíðum hundruðum þúsunda króna á mánuði.

Vilhjálmur Birgisson. „Það er nöturlegt og óþolandi að á sama tíma og launataxtar verkafólks eru að hækka um einungis 9.000 krónur á mánuði þá eru stjórnendur og embættismenn að hækka í mánaðarlaunum frá 156 þúsundum uppí eina milljón á mánuði.“

Það er nöturlegt og óþolandi að á sama tíma og launataxtar verkafólks eru að hækka um einungis 9.000 krónur á mánuði þá eru stjórnendur og embættismenn að hækka í mánaðarlaunum frá 156 þúsundum uppí eina milljón á mánuði. Svo koma þessir aðilar og tala um mikilvægi þess að almennt launafólk sýni hófsemd og stillingu í komandi kjarasamningum þannig að hinum margfræga stöðugleika verði ekki ógnað. Það er morgunljóst að þessi grímulausa græðgi stjórnenda íslenskra fyrirtækja og embættismanna mun klárlega leiða til þess að kröfugerð stéttarfélaganna mun endurspegla það svigrúm sem stjórnendur hafa sýnt að sé til staðar á íslenskum vinnumarkaði. Það er mikilvægt þegar þessar launahækkanir stjórnenda og embættismanna eru skoðaðar að hafa í huga að lágmarkslaun verkafólks hafa hækkað á 20 árum um einungis 230 þúsund en eins og sjá má hér að neðan þá eru fjölmargir stjórnendur að taka slíka launahækkun og rúmlega það á einu bretti.

  • Forstjóri N1 hækkaði í launum um 1 milljón á mánuði, mánaðarlaun 5 milljónir.
  • Forstjóri Landsvirkjunar hækkaði í launum um 800 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 2,7 milljónir.
  • Forstjóri Eimskips hækkaði í launum um tæp 700 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 8,6 milljónir.
  • Bæjarstjóri Kópavogs hækkaði um 612 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 2,5 milljónir.
  • Forstjóri Símans hækkaði í launum um 433 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 4 milljónir.
  • Forstjóri Isavia hækkaði um 400 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 2,1 milljón.
  • Forstjóri Reita hækkaði í launum um 400 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 3,7 milljónir.
  • Forstjóri HB Granda hækkaði í launum um 330 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 4,2 milljónir.
  • Forstjóri Hörpu hækkaði um 267 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 1,6 milljónir.
  • Forstjóri Sjóvá hækkaði í launum um 242 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 4,1 milljón.
  • Forstjóri Íslandspósts hækkaði í launum um 252 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 1,7 milljónir.
  • Sjónvarpsstjóri RÚV hækkaði í launum um 250 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 1,8 milljónir.
  • Forstjóri Landsnets hækkaði í launum um 180 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 1,8 milljónir.
  • Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur hækkaði um 156 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 3 milljónir.

Þessu til viðbótar er rétt að rifja upp að kjararáð hefur hækkað æðstu embættismenn og ráðherra og þingfarakaup um sem nemur 200 til 400 þúsund á mánuði og var það afturvirkt í sumum tilfellum jafnvel 2 ár aftur í tímann.

Að hugsa sér að á sama tíma og Samtök atvinnulífsins, fjármálaráðuneytið, Seðlabankinn og ráðmenn þjóðarinnar koma fram í fjölmiðlum og lýsa yfir gríðarlegum áhyggjum yfir komandi kjarasamningum launafólks á hinum almenna vinnumarkaði og kalla ítrekað eftir að stöðugleikanum verði ekki ógnað eru valdaelítan að raka til sín gríðarlegum launahækkunum og ætlast síðan til þess að almennt launafólk brosi og þegi yfir þessari misskiptingu í íslensku samfélagi.

Það virðist því miður vera fátt sem geti komið í veg fyrir að gríðarlega átök verði á vinnumarkaðnum þegar kjarasamningar renna út um næstu áramót á hinum almenna vinnumarkaði, enda er ekki nokkurn vilja að finna hjá stjórnvöldum né Samtökum atvinnulífsins um að hefja strax vinnu byggða á hugmyndum sem Verkalýðsfélag Akraness, VR, Efling og Framsýn hafa kynnt fyrir forsætisráðherra og fulltrúum SA og byggist á að gerður sé samfélagssáttmáli til 3 – 4 ára með miklum kerfisbreytingum.  Kerfisbreytingum sem byggjast m.a. á því að taka hér á okurvöxtum,okurleigu, verðtryggingu og húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu.  Kerfisbreytingar þar sem hagsmunir alþýðunnar og íslenskra heimila verði teknir framyfir hagsmuni fjármálakerfisins og í þessum samfélagssáttmála yrði horft til þess að aukaráðstöfunartekjur lág-og millitekjuhópanna eins og kostur er.

En eins og áður sagði er lítinn vilja að finna hjá stjórnvöldum og fulltrúum atvinnulífsins og því vill formaður VLFA að það komi skýrt fram að þessi félög munu og ætla að láta kné fylgja kviði við bætta og auka ráðstöfunartekjur okkar fólks og það verður gert með góðu eða illu!

Sólveig Anna Jónsdóttir: „Nú hefur verka- og láglaunafólk fengið nóg.“

Brauðmolahagfræðin er úreld

„Stjórnvöld verða að eiga samtal um innihald krafna stéttarfélaganna, en mega ekki fara að deila um það sem má og ekki má. Það er ljóst að ef það á að nást sátt í þjóðfélaginu þarf að endurhugsa skiptingu kökunnar, brauðmolahagfræðin gengur ekki lengur,“ skrifar formaður VM í pistli sínum.

„Nú hefur verka- og láglaunafólk fengið nóg,“ eru orð Sólveigar Önnu Jónsdóttur formanns Eflingar.

Hvað sem hverju og einu okkar kann að þykja er ljóst að það eru átök framundan. Munum orð formanns félagsins: „Það er ljóst að ef það á að nást sátt í þjóðfélaginu þarf að endurhugsa skiptingu kökunnar.“

Sigurjón M. Egilsson.

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: