Fréttir

Brexit á Alþingi: Áfangasigur almennings yfir embættismannavaldi

By Miðjan

February 06, 2020

Þorsteinn Sæmundsson: Á Íslandi eru t.d. tveir stjórnmálaflokkar sem hafa lengi haft eina stefnu, segulstefnu 130, Reykjavík/Brussel, og nú allt í einu eru þessir ágætu stjórnmálamenn á svipinn eins og hernámsandstæðingar árið 2006 þegar herinn fór úr landi. Tilgangurinn er farinn.

„Eins og margir hafa tekið eftir gengu Bretar úr Evrópusambandinu nú um helgina og viti menn, það er nóg að bíta og brenna í Bretlandi. Það er rafmagn um allt land og lestirnar ganga þannig að það var ekki það hrun sem margir héldu fram að yrði við þennan áfanga. Nú ærast einhverjir í salnum. En í undirbúningi að þessari gerð barst hér um þessa sali tal um það að þeir sem urðu til þess að vinna þjóðaratkvæðagreiðsluna um útgöngu hefðu verið mest ómenntaðir búrar og einangrunarsinnar en góða gáfaða fólkið hefði setið heima og straujað trefilinn sinn,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson Miðflokki.

„Það má segja að þessi útganga sé áfangasigur almennings yfir embættismannavaldi og í kjölfarið á því er rökrétt að breið Breta leiti norður á bóginn eftir samvinnu og samstarfi. Það ríður þá á miklu að við Íslendingar séum klárir í það verkefni, þ.e. að taka á því, og vinna við það stendur yfir, m.a. við að gera tvíhliða samninga við Breta um viðskipti o.fl. Þessi útganga mun líka hafa pólitísk áhrif mjög víða. Á Íslandi eru t.d. tveir stjórnmálaflokkar sem hafa lengi haft eina stefnu, segulstefnu 130, Reykjavík/Brussel, og nú allt í einu eru þessir ágætu stjórnmálamenn á svipinn eins og hernámsandstæðingar árið 2006 þegar herinn fór úr landi. Tilgangurinn er farinn. Hvað gerum við nú? Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með því hvort þessir tveir flokkar sem höfðu þá einu stefnu að Ísland gengið til liðs við þetta laskaða bandalag leggi sjálfa sig niður fljótlega í framhaldi af þessum gleðilegu tíðindum.“