Gunnar Smári skrifar:
Fyrstu kannanir eftir að kjördagur var ákveðinn af breska þinginu sýna kunnugleg áhrif; stóru flokkarnir bæta við sig fylgi á kostnað hinna. Nú er staðan þessi samkvæmt könnun sem Deltapoll gerði fyrir Mail on Sunday (innn sviga breyting frá því fyrir viku):
- Íhaldið: 40% (+3 prósentustig)
- Verkamannaflokkurinn: 28% (+4 prósentustig)
- Frjálslyndir demókratar: 14% (–5 prósentustig)
- Brexit-flokkurinn: 11% (engin breyting)
Samskonar áhrif, en minni, má sjá í könnun Opinium fyrir The Observer:
- Íhaldið: 42% (+2 prósentustig)
- Verkamannaflokkurinn: 26% (+2 prósentustig)
- Frjálslyndir demókratar: 14% (–1 prósentustig)
- Brexit-flokkurinn: 9% (–1 prósentustig)
Og Panalbase:
- Íhaldið: 40% (+4 prósentustig)
- Verkamannaflokkurinn: 29% (+2 prósentustig)
- Frjálslyndir demókratar: 14% (–3 prósentustig)
- Brexit-flokkurinn: 9% (–2 prósentustig)
Þegar flautað er til kosningar breytist afstaða fólks í löndum með kosningakerfi með einmenningskjördæmum, fólk fer að velja taktískt til að nýta atkvæði sín, kjósa það sem getur skilað skástu niðurstöðu eða komið í veg fyrir verstu niðurstöðu. Það eru þessi áhrif sem Corbyn og Verkamannaflokkurinn veðjar á; að þegar líður á kosningabaráttuna muni skýrast að þetta sé glíma milli íhaldsins og Verkamannaflokksins og valið sé á milli óbreytt ástands annars vegar, niðurskurðar í velferð og þóknunar stjórnvalda við hin ríku, eða breytinga hins vegar, áherslna á hagsmuni almennings. Það sem Boris Johnson og Íhaldsflokkurinn veðja á er að kosningarnar muni snúast um Brexit, að fólk sem vill út úr Evrópusambandinu fylki sér um Íhaldið en hin dreifist út um allar koppagrundir. Næstu sex vikur munu skera úr um hvort skiptir Breta meira; að losna út úr Evrópusambandinu eða losna undan nýfrjálshyggju Íhaldsflokksins.
Í slíkri uppstillingu hvað verði um hina blessuðu svokölluðu frjálslyndu miðju? Eins og sjá má umfjöllun ýmissa spámanna hennar í íslenskri umræðu þá geta þeir ekki leynt því að andstyggð þeirra á róttækni Corbyn er meiri en óþol gagnvart alt-right tendensum Boris. Ef það er til marks um afstöðu miðjunnar í Bretlandi þá mun hún hlaupa í fang Íhaldsins, eins og raunin hefur verið með krata alla tíð þegar línur skýrast í pólitík. Það má vona að hin breska miðja hafi meiri samkennd með þeim sem verst hafa orðið úti í niðurskurði og eyðileggingarstarfsemi íhaldsins á undanförnum árum og Blairistana í Verkamannaflokknum þar á undan. Það má vona, en það væri hálf heimskulegt að treysta því.