Davíð Oddsson telur greinilega að hin firnasterka samtrygging stjórnmálamanna sé að að gliðna. Jafnvel að bresta. Hann skrifar nokkuð um þetta í Reykjavíkurbréfi morgundagsins.
Þar segir á einum stað: „Stjórnmálamenn eru ekki endilega í hávegum hafðir og það er ekki nýtt. Þeir voru það ekki heldur á meðan vald þeirra var ekki til málamynda eins og þróast hefur. Ástæða þessa er sennilega sú, að „stéttin sjálf“ skítur út sjálfa sig hvenær sem hún má. Hún fer að vísu Krísuvíkurleið til þess. Einn hlutinn gerir því skóna að framganga annars hluta sé ekki bara hæpin heldur stórkostlega til skammar, lögbrot stundum, siðferðisbrot oftar ef ekki alltaf, af því að það er svo þægilega óljóst og rammalaust hugtak, glæpsamleg þegar mikið liggur við, vitnisburður um vafasamt innræti og þar fram eftir götunum. Þegar þetta hefur gengið nægilega lengi þá hefur stéttin sem heild náð að níða svo skóinn niður af stéttinni í heild og bía hana svo út að það er ekki lengur þurr þráður á henni sem heild og fæstum sem einstaklingum. Og það skemmtilega við þetta er að allir í hópnum eru um leið sannfærðir um að engin af þessum ásökunum gildi um þá og skilja ekki hvers vegna almenningur hafi jafn lítið álit á „honum“ og hann hefur réttilega á öllum hinum.“
Augljóst er að hann á einna helst við Pírata í gagnrýni sinni. Það skýrir ójafnvægi „Davíðsarmsins“ í þingflokki Sjálfstæðisflokksins í garð Pírata.
Davíð vegur einnig að sínum eigin flokki þegar hann skrifar:
„Áhugi manna á stjórnmálum hefur minnkað hratt hér á landi á undanförnum árum. Aðild að helstu flokkum skreppur saman og mæting á fundi verður tregari. Skýringarnar á þessu kunna að vera margar og þær þurfa ekki allar að sýna að heimurinn fari þar með versnandi.
Ein ástæðan er örugglega sú að reynsla síðasta áratugar sýnir að lítið eða ekkert er gert með ótvíræðar samþykktir á samkundum flokka, einmitt þeirra sem mest vald eiga að hafa samkvæmt hefðum og beinhörðum reglum. Það þarf mikið kæruleysi, í bland við einkennilega áhættufíkn, að gera hvað eftir annað lítið úr og ekkert með þær samþykktir. Flokksfólkið á eftir það engan annan kost annan en þann, að líta raunsætt á þá framgöngu og skynja þar með að engu skiptir hvort það mætir og tekur þátt og afstöðu eða mætir ekki. Hvort tveggja sé jafngilt.“
Ætli Bjarna Benediktssyni hafi brugðið við þennan lestur? Varla. Hann er ekki góður vanur úr Hádegismóum. Næsta sneið frá Davíð er örugglega ekki ætluð Bjarna, manni sem hefur tekist að vera valdamestur Íslendinga í áraraðir. Þeir taka eflaust til sín sem eiga:
„Önnur skýring gæti sjálfsagt verið sú og sjáanlegri en áður að stjórnmálamenn hafi ekki sömu úrslitaáhrif og áður. Margir ættu auðvelt með að rökstyðja að sú breyting væri til batnaðar. Það þýddi í þeirra huga að „fagmennska“ réði mun meiru en áður var. Ókunnar stofnanir og ábyrgðarlausir „fagmenn“ ráða þegar mun meira um það en stjórnmálamenn hverjir hafa úrslitaáhrif á þau málefni sem almenningur stendur undir með skattfé sínu.“
Hinn aldni lítur enn um öxl: „Áður fyrr var þó heilmikið mótvægi falið í því að stjórnmálamaðurinn sem eintak skipti einhverju máli, eins og samþykkt á landsfundi flokka gerði áður en hætt var að taka mark á þeim líka.
Breytingin um þetta fyrra er smám saman að renna upp fyrir almenningi. Þegar við bætist að nánast allur þorrinn af löggjöfinni kemur nú annars staðar frá, þvert á gefin fyrirheit, og því sé blákalt haldið fram að heimildin til þessa hafi verið svikin inn á þjóðina, þá er orðið lítið eftir.“
Úrskurður Evrópudómstólsins situr í okkar manni. Hann er annað hvort reiður eða bálreiður:
„Niðurstaða „stjórnvalda“ í seinasta deilumáli var sú að Ísland hefði ekki lengur heimild til þess að hafna fyrirmælum sem send væru að utan til fullgildingar hér.
Þótt athæfið brjóti sannarlega bæði lög landsins og stjórnarskrá þess þá breyti það ekki því að óheimilt sé að horfa til slíkra heimilda, vegna þess ótta sem embættismenn hafi komið sér upp og miðlað til undirmanna sinna, stjórnmálamannanna. Og kannski er þetta meginástæðan fyrir því að áhuginn á því að velja sér stjórnmálaamstur sem lífsstarf víkur fyrir næstum hvaða öðrum kosti sem býðst. Og það mannvalslögmál ýtir fljótt undir að þeir sem utan við standa beini áhuga sínum annað.“