Breska lögreglan tjáir sig um Gylfa Þór – Everton vill spara tugi milljóna á viku með því að losna við leikmanninn
Lögreglan í Manchester vonast til að niðurstaða fáist bráðum í rannsókninni á íslenska knattspyrnumanninum Gylfa Þór Sigurðssonar. Hann hefur verið laus gegn tryggingu meðan rannsóknin stendur yfir og verður laus til 16. júlí næstkomandi. Þá vonast lögreglan til þess að málinu verði lokið:
,,Eins og er getum við ekki staðfest að það sé dagurinn sem niðurstaða um það hvort ákæra eigi í málinu eða ekki verður kveðin eða hvort framlengja eigi lausn hans gegn tryggingu. Rannsókn hefur staðið yfir í langan tíma en vonir standa til að það styttist í niðurstöður hennar,“ segir talsmaður lögreglunnar í Manchester í samtali við Fréttablaðið.
Alls hefur lausn Gylfa Þórs gegn tryggingu verið framlengd í þrígang frá því að hann var handtekinn í júlí í fyrra.
Ljóst þykir að Gylfi Þór sé á förum frá Everton en samningur hans rennur út í lok næsta mánaðar. Gylfi hefur hvorki æft né spilað með Everton í tæpt ár eftir að hann var handtekinn á Englandi í fyrrasumar vegna ásakana um að hafa brotið kynferðislega gegn ólögráða stúlku.
Gylfi hefur verið í herbúðum Everton í fimm ár en hann er dýrasti leikmaður í sögu félagsins. Enska úrvalsdeildarfélagið borgaði 45 milljónir punda fyrir íslenska landsliðsmanninn sumarið 2017. Fjölmiðlar ytra segja að losni félagið við Gylfa, og þrjá aðra leikmenn geti Everton sparað sér 50 milljónir á viku. Hann er langlaunahæsti íslenski knattspyrnumaðurinn en hann fær um 850 milljónir króna í árslaun hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Everton.