Viðhorf Innihaldslausar fullyrðingar og ósannindi um kvótakerfið og árangur fiskveiðistjórnunar.
Reykjavík, 8. maí 2014Bakgrunnur kerfisins er að Hafrannsóknastofnun hafði lofað í mörg ár að með vísindalegri stjórn veiðanna væri unnt að hámarka afrakstur fiskimiðanna, afli yrði hámark þess sem miðin gæfu af sér og yrði jafn og stöðugur. Í upphafi, þegar talað var fyrir vísindalegri stjórn veiða, var því lofað að jafnstöðuafli þorsks yrði 500 þús tonn á ári.
Þegar útlendingar hurfu af miðunum 1976 var svo hægt að hefjast handa við að stjórna veiðunum og fiskifræðingar Hafró lögðu línuna: Draga úr veiðum á smáfiski svo hann fengi að vaxa og dafna og veiðast stærri.
Þessi hugmyndafræði gekk ekki upp, fiskur fór að léttast og afli minnkaði. Þorskaflinn árið 1983 datt niður í 300 þús tonn, sem þótti þá algjört hrun í afla. Tækifærið var notað til að setja kvótakerfið á. Vísindamenn reyndu ekki að skýra hvers vegna þetta hafði gerst en börðu hausnum við steininn og héldu áfram að reyna að byggja upp þorskstofninn án árangurs. Nú er þorskafli um 200 þús. Tonn, en var 300 þús tonn 1983 þegar menn héldu að stofninn væri hruninn og kerfið var sett á. Aflinn var 4-500 þús tonn í frjálsri sókn áður en landhelgin var færð út.
Hér á eftir eru teknar fyrir ýmsar fullyrðingar, sem hafa verið hafðar í frammi og athugað í ljósi reynslunnar hvort þær eigi sér einhverja stoð:
1. Íslenska kvótakerfið er besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi. Þetta er algeng ályktun kvótasinna og viðtekinn sannleikur í áróðri LÍÚ.
Rangt. Þetta aflamarkskerfi svokallað ber í sér alla þá galla, sóðaskap og spillingu sem þekkt er í útgerð og fiskveiðum: A. Brottkast. B. Tegundasvik. C. Undanskot frá vigtun.
2. Á íslandi er best rekni sjávarútvegur í heimi.
Rangt. Milljarðatap og afskriftir eru fastir þættir í fréttum af útgerðum. Endurnýjun hæg og nánast engin utan smábátaútgerðar sem á í vök að verjast vegna skorts á aflaheimildum. Útgerðir leigja frá sér aflaheimildir (sameign þjóðarinnar) fyrir okurverð; mörg dæmi um að mestur hluti afurðaverðs gangi til seljanda aflaheimildanna. Áróður LÍÚ gegn veiðigjöldum er að þau séu of íþyngjandi og séu að – eða búin að – setja útgerðir í rekstrarþrot. Fréttir af rekstrarþröng smábátaútgerða nær óþekktar. Hér er lagt til og talið utan allrar áhættu að gefa handfæraveiðar frjálsar með þeirri varkárni þó að smábátum sé ekki att til veiða í illviðrum.
3. Haldið er fram að hagkvæmara sé að sækja fisk með fáum skipum og stórum en mörgum og smáum.
Rangt. Það er margsannað og allir útreikningar sýna að kostnaður pr. rekstrareiningu á stærri skip (togara) er MARGFALDUR í samanburði við smábátaútgerðir.
Auk þess er ekki alltaf spursmál um það sem hagfræðingar kalla hagræðingu eða gróða við fiskveiðar heldur hve marga fiskveiðarnar geta brauðfætt, og er þá t.d. átt við að margar fjölskyldur geta haft lifibrauð sitt af útgerð og styðja samfélagið með sköttum sínum og gjöldum auk þess að skapa veltu í samfélaginu.
5. Því er haldið fram af fiskifræðingum Hafrannsóknastofnunar að botnfiskstofnar við Kanada og Nýfundnaland hafi horfið vegna OFVEIÐI.
Þessi kenning stenst varla í ljósi þess að mælingar fyrir hrun sýndu til muna sterkari stofn en skilaði sér í veiddum fiski. Það er mjög lítið rætt um að lækkað hitastig breytti ætisskilyrðum á veiðislóðum á þessum tíma, nokkuð sem olli hægari vexti og aukinni dánartölu. Gögn sýna greinilega að fiskurinn veslaðist upp af hungri. Friðun á smáfiski skilar ekki sterkari veiðistofni nema því aðeins að nægt fæðuframboð sé fyrir hendi. Það er líffræðileg staðreynd sem öllum á að vera vel skiljanleg.
Árangur af verndarstefnu Hafrannsóknastofnunar er minni en ENGINN því nú fiskum við minna en við veiddum fyrir daga kvótakerfisins og fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar úr 6 mílum í 12.
Afskipti og verndun Hafró virðist hafa orðið að stórslysi í öllum samanburði við fyrra ástand. Helstu nytjastofnar okkar í botnfiski skila ekki nema hluta þess sem áður veiddist. Þrátt fyrir þetta og margar rökréttar og faglegar ábendingar heldur Hafró áfram sinni stefnu og neitar að ræða hvað fari úrskeiðis. Eina svarið sem fæst er að fara þurfi varlega til að koma í veg fyrir ofveiði.
Færeyingar tóku upp íslenska kerfið undir lok síðustu aldar og notuðu það í tvö ár. Eftir þá reynslu lögðu þeir það niður og gefa því falleinkunn í öllum efnum.
Færeyingar hafa engar auðlindir aðrar en fiskveiðar svo þetta segir mikla sögu. Þeir nota sóknarkerfi þar sem því verður við komið og tryggja með því að allur veiddur fiskur kemur á land. Eru líkur á því að við getum talist hafa stöðu til að segja Færeyinga ófæra um að hafa vit fyrir sér í tengslum við sjósókn?
Ef sú kenning fiskifræðinga er rétt að fiskistofnar við Ísland séu í lægð vegna ofveiði og þoli ekki að veitt sé í líkum mæli og áratugum fyrir vísindalega verndun er ástæða til að staldra við nokkur atriði.
Þegar afli brást í verstöðvum á Suðurnesjum og allt umhverfis Ísland eins og oft gerðist á miðöldum (fólk féll úr hungri) er útilokað að kenna ofveiði um. Ef „meint lægðarástand“ þorsk-og ýsustofna við Ísland má rekja til ofveiði undangenginna 30 ára, ÞRJÁTÍU ára, af hverju var ekki traustur jafnstöðuafli á miðum okkar allt fram á tíma stórvirkra botnvörpunga? Svarið við þessu er auðvitað að þetta tal um ofveiði er stórlega ýkt og líklega þó öllu heldur hreint bull.
Vöxtur þorsks og ýsu hefur lengi lélegur, nokkuð sem bendir til takmarkaðrar fæðu en í ofveiddum fiskstofni er fæða í yfirmagni og vöxtur góður. Sveiflur í fiskstofnum eru eðlilegar og ef viðhöfð er jöfn aflaráðgjöf ár eftir ár er það vísbending um vannýtingu fiskistofna.
Úthlutun aflaheimilda er frá 1. september til eins árs í senn og úthlutun myndar ekki eign.
Samt sem áður hefur útgerðum verið heimilað að nota aflaheimildir til andlags/veðsetningar við lántökur. Þetta hefur leitt af sér skýlaust brot á lögunum með því að útgerðir hafa selt skip og aflaheimildir aðskilið eftir geðþótta. Þetta ákvæði er því markleysa í framkvæmd og engar breytingar þar í augsýn. Þar við bætist að þrátt fyrir að kvótinn sé þjóðareign samkv. lögum, leyfist útgerðum hindrunarlaust að leigja frá sér aflaheimildir allt að 50% úthlutunar á opinberum uppboðsmörkuðum!
Norðmenn hafa áttað sig á því að fiskveiðar á að stunda í hlutfalli við fiskgengd á mið og að hættulegt geti verið að veiða of lítið.
Í Barentshafi hefur verið veitt langt umfram tillögur fiskifræðinga í mörg ár og stofninn hefur sífellt stækkað og nú eru veidd þar um ein milljón tonna af þorski. Þeir hafa þeir gefið frjálsar veiðar öllum bátum að 11 metrum. Og þetta á við um veiða á öll þau veiðarfæri sem hefð er fyrir. Af hverju eru handfæraveiðar ekki frjálsar hjá okkur? Er virkilega talin hætta á að handfæri ógni fiskistofnum? Það getur varla verið satt.
Er það pólitískt markmið að nota öll tækifæri til að banna fólki að bjarga sér? Í meira en þúsund ár fiskuðu íbúar sjávarþorpanna umhverfi Ísland í sátt við náttúru lands og sjávar. Og þorpin umhverfis landið byggðust upp kringum útgerð og vinnslu aflans. Í dag er mannlíf margra þessara sjávarþorpa nánast svipur hjá sjón, enda í nokkrum skilningi komið á uppboðsmarkaði kvótagreifa LÍÚ.
Að lokum
Í byrjun apríl s.l. birtust niðurstöður úr nýjasta ralli Hafró en það er þeirra mæling á stærð fiskstofna og er notuð til að ákvarða aflamark næsta árs.
Þar kemur fram að vísitala þorsks hefur lækkað 2 ár í röð, samtals um 25% frá 2012, og lítil von sé um betri nýliðun. Um nokkurt skeið hefur verið dregið úr sókn til að stofninn muni stækka en það gengur ekki eftir, þvert á móti. Með þessari litlu sókn, 20%, miðað við 35% fyrir kvótakerfi, hafa tapast gríðarleg verðmæti.
Virðingarfyllst:
Árni Gunnarsson f.v. ferskfiskmatsmaður – arnireykur@hive.is
Grétar Mar jónsson skipstjóri – sími 8451546
Jón Kristjánsson fiskifræðingur – jonkr@mmedia.is
Sigurjón Þórðarson líffræðingur – sigurjon@sigurjon.is