Sanna Magdalena hefur skrifað samantekt eftir lestur skýrslunnar um Braggamálið. Hér eru viðbrögð Sönnu, en fyrirsögnin er Miðjunnar.
Nú er ég loks búin að lesa skýrslu Innri endurskoðunar og alla viðaukana sem fylgdu með, um endurgerð bygginga við Nauthólsveg 100, frá a til ö og strika með áherslupenna undir það sem mér þykir alvarlegast, flest allar blaðsíðurnar eru því orðnar ansi gular. Innri endurskoðun (IE) telur að ef fullnægjandi úrbætur hefðu verið gerðar vegna ábendinga IE við úttekt á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar (SEA) árið 2015, hefði verkefnið að Nauthólsvegi 100 ekki farið í þann farveg sem það gerði.
Framkvæmdirnar við Nauthólsveg 100 fóru ekki eftir reglum og samþykktarferlum vegna mannvirkjagerðar og ákvæðum þjónustusamnings á milli SEA og Umhverfis- og skipulagssviðs (USK) og verkefnið hefði því átt að vera á borði USK. Það virðist hafa verið mjög auðvelt að taka málin í sínar hendur eins og fram kemur í tölvupóstsamskiptum milli fyrrverandi skrifstofustjóra SEA og skrifstofustjóra framkvæmda og viðhalds á USK en hinn fyrrnefndi sendi tölvupóst til þess síðarnefnda sem hljóðar þannig: „Nú er allt að fara af stað við Nauthólsveginn. Og þá vaknar spurningin hvort við eigum að flytja verkefnið til ykkar. Samkvæmt öllum verkferlum ætti það auðvitað ekki að vera spurning. En ég held að það gæti verið skynsamlegt að skrifstofan hér haldi utan um þetta til enda. En ég vil ekki ákveða það nema með þinni vitneskju.“ Skrifstofustjóri framkvæmda og viðhalds á USK svarar sama dag: „Sammála að verkefnið verði í umsjón SEA.“ Í þessum samskiptum eru engin rök færð fyrir afhverju slíkt þyki skynsamlegt og engin nánari umfjöllun og vekur það furðu að svo auðvelt sé að koma svo stórum verkefnum auðveldlega á milli sviða borgarinnar.
Aðhald og eftirlit var af mjög skornum skammti í þessu verkefni, engir skriflegir samningar voru gerðir varðandi verkefnið að undanskildum leigusamningi við HR. Einn af arkitektum bygginganna var ráðinn sem verkefnastjóri á byggingarstað, sem er ekki talið heppilegt, með tilliti til hagsmunaárekstra. Farið var úr samþykktum fjárheimildum og þess var ekki gætt að sækja um viðbótarfjármagn áður en stofnað var til kostnaðar. Upplýsingastreymi var óásættanlegt, þar sem dæmi eru um villandi og jafnvel rangar upplýsingar. Nánast engin skjöl fundust í skjalavörslukerfi borgarinnar vegna verkefnisins og það er BROT Á LÖGUM um opinber skjalasöfn svo og skjalastefnu borgarinnar.
Skýrslan er vel unnin og fer yfir þá þætti sem tengjast þessu braggamáli en ég sit þó eftir með margar spurningar eftir lesturinn. Ég rak sérstaklega augun í að gögn liggja ekki alltaf fyrir og því er ekki hægt að draga upp mynd af öllum þeim þáttum er viðkoma málinu. Á bls. 39 stendur t.d. „Það liggur ekki ljóst fyrir af hverju arkitektastofan Arkibúllan var valin til að hanna endurbygginguna en helst má álykta að það hafi verið vegna þess að fyrrverandi skrifstofustjóri og verkefnastjóri SEA voru kunnugir arkitektinum sem síðar varð verkefnisstjóri á byggingarstað. Sá var fyrrverandi starfsmaður borgarinnar. Ekki var haft samband við aðrar arkitektastofur varðandi hönnun né haldin hönnunarsamkeppni eins og stundum er gert.“
Á bls. 41 stendur „Það er ljóst að mikil kostnaðaraukning hefur hlotist af því að breyta því sem átti að vera einfaldur stúdentakjallari yfir í vínveitingastað. Hvernig ákvörðun um það var tekin og hver tók þá ákvörðun eða samþykkti að sú breyting yrði gerð liggur ekki fyrir og engar skriflegar heimildir virðast vera fyrir því.“
Þegar fjallað er um samskipti verkefnastjóra SEA og fyrrum skrifstofustjóra SEA á bls. 42, um uppfærða kostnaðaráætlun sem var komin 65% fram úr frumkostnaðaráætlun, stendur: „Hefði þá mátt ætla að verkefnastjóri SEA gerði yfirmanni sínum, skrifstofustjóra SEA, aðvart um það. Hvort hann gerði það liggur ekki ljóst fyrir því um það atriði ber framburði þeirra ekki saman.“
Á bls. 53 sem tekur saman niðurstöður Innri endurskoðunar um framvindu verksins kemur fram að „Starfsmaður Eflu sem sat fundi verkefnisstjórnar sá um að uppfæra kostnaðaráætlanir og kynna þær á fundum verkefnisstjórnar þar til í júlí 2017 þannig að öllum sem sátu þá fundi var ljóst hver staðan var á hverjum tíma. Samkvæmt síðustu kostnaðaráætlun frá þessu tímabili var áætlaður kostnaður kominn 65% fram úr frumkostnaðaráætluninni sem borgarráð fékk í hendur og hefði þá sannarlega verið tími til kominn að upplýsa borgarráð um stöðu mála. Hins vegar liggur ekki fyrir hver/hverjir utan þessa hóps voru upplýstir um stöðuna.“
Í skýrslunni kemur fram að „samkvæmt skipuriti er borgarritari næsti yfirmaður skrifstofu eigna og atvinnuþróunar en þó hafa mál skrifstofunnar ekki verið á hans borði heldur farið beint til borgarstjóra og því hefur ekki verið unnið samkvæmt réttri umboðskeðju.“ Þá spyr ég mig afhverju borgarritari eða borgarstjóri hafi ekki gert athugasemd við þetta, afhverju hefur borgarstjóri t.d. ekki sett út á það að með því væri ekki verið að vinna út frá réttri umboðskeðju.
Þá kemur fram að í viðauka við fjárfestingaráætlun 2018 sem samþykktur var í borgarráði í ágúst 2018 var úthlutað 150 m.kr. til framkvæmda við endurgerð húsanna við Nauthólsveg 100. Þegar fundargerð borgarráðs frá 16. ágúst er skoðuð þá má sjá að um er að ræða breytingar á fjárfestingaráætlun A-hluta Reykjavíkurborgar. Sú tillaga og greinargerð sem fylgir er sett fram af borgarstjóra og í liðnum um Nauthólsveg 100 stendur: „Ráðstafað verði 150 mkr til framkvæmda við endurgerð bragga við Nauthólsveg 100. Í samningi Reykjavíkurborgar og HR var gert ráð fyrir að endurgerð braggans myndi kosta 158 mkr en raunkostnaður nemur nú 400 mkr. Enginn grunnur reyndist undir húsinu og öll framkvæmdin mun kostnaðarsamari en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir en bragginn er friðaður. HR sem leigutaki mun bera straum af þriðjungi fráviks frá kostnaðaráætlun með hækkaðri leigu.“
Í umfjöllun um málið má skilja orð borgarstjóra á þann veg að hann hafi ekki vitað að málin væru komin í óefni en setur samt sem áður fram tillögu undir sínu nafni um auknar fjárveitingar til framkvæmdanna við Nauthólsveg 100 sem mér þykir frekar sérkennilegt. Ég spyr mig því hvort að hann hafi fengið villandi upplýsingar eða hvort að hann hafi sett fram tillöguna um auknar fjárveitingar og ekki séð neitt athugavert við það? Það eru margir þræðirnir sem maður er að hugsa um eftir lesturinn.
Þetta er grafalvarlegt mál og ég átta mig ekki á því hvernig í ósköpunum þetta gat haldið áfram að vaxa og vaxa. Mér þykir ekki nóg að segja að þetta sé mál sem allir verði að læra af, heldur þarf einhver miklu alvarlegri viðbrögð. Ég er í raun bara orðlaus og hef miklu meira um málið að segja en þetta eru brot af þeim spurningum sem ég myndi vilja fá svör við. Afhverju var ekkert í kerfinu sem stoppaði þetta af, áður en þetta var komið svo langt á veg. Ég skynja svona Indriða í Fóstbræðrum stemmningu í kringum þetta mál. Nú hef ég aldrei horft á þættina en oft séð skettsin þar sem hann segir „Á ég að gera það? Ég hef engar faglegar forsendur, menntun, reynslu eða þekkingu á því sviði.“
Þetta eru allavegana mín fyrstu viðbrögð eftir lesturinn.