- Advertisement -

Bráðum tíu ára í krónuvanda

Gærdeginum varði ég með afasyni mínum, sem verður tíu ára í september, og sjö ára systur hans. Þau búa í Svíþjóð. Góður ættingi hafði gefið stráknum fimm þúsund króna seðil, sem fyrirfram afhenta afmælisgjöf. Vel meint og vel gert.

En strákurinn gerði sér grein fyrir að hann væri í vanda staddur. Þar sem óðum styttist að hann fari aftur heim til Svíþjóðar vissi hann fullvel að þar í landi yrði íslensku fimm þúsund krónurnar einskis virði. Þar sem hann var ekki viss um hvað hann langaði til að kaupa sér var hann nokkuð upptekinn af þeirri nauðsynlegu fjárfestingu sem þá biði hans.

Reyndar varð til sú hugmynd hjá honum að fá fimm þúsund kallinum skipt yfir í sænskar krónur og þannig aflétta fjárfestingarspennunni og óvissunni. Vonandi verður það ofan á. Enda með öllu óvíst hvert verðgildi íslensku krónunnar verður í nánustu framtíð.

Strákurinn var meðvitaður um að fimm þúsund íslenskar eru miklir peningar og því ekki sama hvernig þeim verður varið. Hann taldi rangt að kaupa eitthvað fyrir peninginn sem hann yrði leiður á innan tveggja til þriggja ára. Hann leitaði í huga sér að góðri hugmynd, en fékk enga sem hann var sáttur við.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nú eru tveir dagar þar til hann fer heim til Svíþjóðar. Enn er hann með fimm þúsund króna seðilinn sem er hans eina áhyggjumál, þ.e. hvað verður um peninginn. Fær hann fína hugmynd og kaupir eitthvað eigulegt, skitpir hann yfir í sænskar eða gufar íslenska krónan upp og verður að engu?

Krónunvandinn snertir allar kynslóðir.

Sigurjón M. Egilsson.

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: