- Advertisement -

Bráðadeildin á endalausum yfirsnúningi

„Er með í undirbúningi frumvarp sem lýtur að því að styrkja öryggið í heilbrigðiskerfinu og öryggismenninguna.“

Willum Þór Þórsson.

„Fyrir tveimur mánuðum síðan varð ólýsanlegur harmleikur þegar einstaklingur andaðist stuttu eftir heimkomu af bráðadeild Landspítalans. Bráðadeildin var þá á yfirsnúningi og nýtingarhlutfall yfir 200% á sama tíma,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson á þingi í morgun.

„Skortur á legurýmum á öðrum deildum Landspítala var staðreynd og deildirnar keyrðar áfram á yfir 100% afköstum. Ástandið á bráðadeild Landspítala í desember var þannig að fólki var ráðlagt að mæta ekki á bráðadeildina heldur fara á heilsugæsluna. Ástandið á heilsugæslunni í desember var þannig að fólki var ráðlagt að mæta ekki þangað heldur halda sig bara heima hjá sér og vona að það læknaðist af sjálfu sér enda allt að átta vikna bið eftir tímum á sumum heilsugæslum,“ sagði þingmaðurinn.

„Í desember vantaði einn þriðja af læknum á bráðadeild Landspítalans og það voru um tvöfalt fleiri á deildinni en gert var ráð fyrir. Deildin var undirmönnuð og hún gat ekki sinnt eðlilegum fjölda og hvað þá meira en tvöfalt fleiri sjúklingum. Er einhver hissa á því að fólk hafi verið beðið um að koma ekki á bráðamóttökuna þegar það var orðið dauðans alvara að mæta þangað í orðsins fyllstu merkingu? Á fimmta tug sjúklingar voru fastir á bráðamóttökunni vegna þess að ekki var hægt að flytja þá á aðrar deildir spítalans því það var allt fullt. Það vantaði að manna vaktir og þau sem voru á vakt áttu bara að vinna allt að þrisvar sinnum hraðar,“ sagði Guðmundur Ingi og spurði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Hvað hefur hæstvirtur heilbrigðisráðherra gert til lausnar á þessu skelfilega ástandi sem myndaðist þarna? Með hvaða ráðum mun hann koma í veg fyrir og sjá til þess að svona ástand og afleiðingar þess myndist ekki aftur?“

Willum Þór svaraði:

„Við erum auðvitað að fara í gegnum mjög krefjandi aðstæður og holskeflu veirusýkinga sem má segja að hafi komið í kjölfar heimsfaraldurs. Það má segja að enn eitt álagsprófið hafi verið sett fyrir heilbrigðiskerfið og undirstrikar í raun og veru hversu öflugt og þrautseigt kerfið er og starfsfólkið. Það er auðvitað miður þegar upp koma alvarleg atvik en þau gerast og maður verður alltaf jafn miður sín með það. Ég get að sjálfsögðu ekki tjáð mig um sértilvik en þau fara í hefðbundið ferli. Það hefur verið til umræðu og ég er með í undirbúningi frumvarp sem lýtur að því að styrkja öryggið í heilbrigðiskerfinu og öryggismenninguna.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: