Ljósmynd: Alda Lóa.

Mannlíf

Börnin mín eru orðin íslensk

By Miðjan

December 10, 2018

Fólkið í Eflingu, mynd og texti: Alda Lóa: Ég var lyfjafræðingur í Kína, en fæ ekki vinnu við það hérna á Íslandi. Til þess að ég gæti það þyrfti ég bæði að taka nýtt próf og læra íslensku, en ég hef ekki þrek í það. Líf mitt breyttist og núna vinn ég í eldhúsi.

Við eignuðumst stelpuna okkar á Íslandi, en í Kína megum við bara eiga eitt barn. En mér fannst við svo lítil fjölskylda, aðeins þrjú í heimili og þar sem við vorum á annað borð komin til Íslands og máttum eignast fleiri börn, þá fékk ég dóttur mína.

Kína hefur breyst mikið á stuttum tíma. Þegar ég bjó þar þá fór fólk allra leiða sinna hjólandi, núna kem ég í heimsókn og þá hefur hjólunum verið skipt út fyrir bíla sem hefur í för með sér mikla mengun.

Þótt ég sakni fjölskyldu minnar er gott að vera á Íslandi, hreint vatn og loft og gott fólk. Ég keypti hús í Hveragerði fyrir nokkrum árum og börnin mín eru orðin íslensk. Strákurinn minn er byggingarfræðingur og býr í Reykjavík og dóttir mín sem er fjórtán ára hefur verið í píanónámi og hún var íþróttamaður Hamars í fyrra.

Þegar ég byrjaði hérna í eldhúsinu hjá heilsustofnun NLHÍ voru margar reynslumiklar konur hérna í eldhúsinu sem ég lærði mikið af. Þær hjálpuðu mér svo mikið, kenndu mér að baka og elda Íslenskan mat. Við notum gas í Kína, þar var ég ekki með bakaraofn og þar borðaði ég ekki brauð en í Hveragerði lærði ég að baka brauð.

Ég hef áhuga á eldamennsku og ég er farin að elda stundum eitthvað íslenskt heima eins og kjötsúpu. Þegar ég flutti og byrjaði að vinna hérna var allt nýtt, ég hafði aldrei kynnst kryddum eins og timian, rósmarin og oreganó, við notum ekki þessi krydd í Kína. Eða pizza og lasagne það var eitthvað sem ég hafði aldrei séð né borðað áður. Þannig að ég lærði margt nýtt og ég get sagt gömlu bekkjarsystkinum mínum í lyfjafræðinni í Kína frá því og skammast mín ekkert fyrir að segja þeim að ég vinni í eldhúsi.

Ég vinn frá sjö til þrjú, fjóra daga í viku og aðra hvora helgi. Þetta er 90% vinna. Ég er að vinna með höndunum og við í Kína hugsum þannig að þú þurfir að mennta þig til þess að hækka í launum. En eldhúsvinnan er álag á líkamann, ég er slæm í handleggnum og öxlinni og þarf að fara í heita pottinn eftir vinnu til þess að mýkja hann upp. Ég kvarta ekki yfir laununum, en ég hef séð í fréttunum það sem ég skil að sumir hækka svo mikið í launum á meðan við hin erum bara að hækka um 2 til 3 %, ég er ekki sammála því, það er ekki gott.

Ruyi Zhao starfskona í eldhúsi og félagi í Eflingu. #fólkiðíeflinguSjá fleiri sögur um fólkið í Eflingu: http://folkid.efling.is/