Guðmundur Hrafn Arngrímsson skrifaði:
Vissuð þið að það geisar húsnæðiskreppa á Íslandi? Eruð þið kannski örugg í ykkar eignaríbúð með hæfilega greiðslubyrði og finnst ykkur ekki koma það við þótt aðrir þjáist á leigumarkaði? Eruð þið kannski með ágætar tekjur og tengið ekki við þau sem ná ekki endum saman á lægstu launum, örorkulífeyri eða eftirlaunum?
Vissuð þið að þegar foreldrar missa leiguíbúðina sína, fá samninginn ekki endurnýjaðan og finna ekki nýja íbúð, ber þeim að tilkynna það til barnaverndaryfirvalda sem þá setja börnin í fóstur, taka börnin af hinum fátæku foreldrum sem eru fórnarlömb helstefnu stjórnvalda í húsnæðismálum?
Vissuð þið að vegna fjölgunar ferðamanna, flutninga erlends verkafólks til landsins til að sinna ferðafólkinu og mikillar fjölgunar flóttafólks vegna Úkraínustríðsins ofan í ónýtan húsnæðismarkað er samkeppnin um hverja lausa leiguíbúð hörð, oft eru 200 umsækjendur um hverja lausa íbúð? Og verðið skrúfast upp.
Vissuð þið að ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að bæta stöðuna á leigumarkaði? Allar aðgerðir hennar hafa í raun gert ástandið verra.
Vissuð þið að á sama tíma og yfirvöld taka börnin af fátæku fólki er í ríkisstjórninni ráðherra sem kallar sig barnamálaráðherra? Sá gerir ekkert gagnvart þessari stöðu. Hann er sjálfur leigusali, leigir út einbýlishús sem notað er sem fjölbýlishús fyrir erlenda verkamenn.
Vissuð þið að andvaraleysi ykkar gagnvart þessari stöðu er í raun í stuðningur við stefnu ríkisstjórnarinnar, stuðningur við að lífskjör leigjenda séu barin niður, stuðningur við að fótunum sé kippt undan lágtekjufólki, stuðningur við að yfirvöld taki börn af fórnarlömbum helstefnu ríkisstjórnarinnar.