Viðhorf Stýrivextir verða óbreyttir, eða 5,75 prósent. Í rökstuðningi Seðlabankans segir að verðbólga hafi mælst tvö prósent í nóvember. Það segir okkur að vextir að frádreginni verðbólgu eru 3,75 prósent, sem eru margfaldir þeir vextir sem neytendur, lántakendur í næstu löndum þurfa að borga.
Greiningardeild Landsbanka Íslands hefur bent á að Seðlabankann hefur áætlað meiri verðbólgu en raun hefur orðið á.
„Yfirgnæfandi líkur eru á að nýjasta verðbólguspá Seðlabankans frá því í nóvember muni ofmeta verðbólguna á yfirstandandi fjórðungi. Seðlabankinn spáði að verðbólgan yrði 2,3 prósent á ársfjórðungnum og þarf vísitala neysluverðs að hækka um rúmlega 1,3 prósent í desember, þá færi ársverðbólgan í 3 prósent, til að sú spá rætist,“ sagði Hagsjá Landsbankans, fyrir nýjustu vaxtaákvörðun.
Már Guðmundsson, bankastjóri Seðlabankans, var nýverið spurður, í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni, um alvarleika þess að ofmeta stöðuna og ákvarða of háa vexti. Már sagði einfalt að leiðrétta það við næstu vaxtaákvörðun. Þess sjást ekki merki nú.
En ofmetur Seðlabankinn verðbólguna?
„Þetta er í rauninni saga síðustu mánaða. Verðbólgan hefur reynst töluvert minni en skammtímaspár Seðlabankans og ætlar því að verða bið á því að miklar launahækkanir í kjarasamningum skili sér í aukningu verðbólgunnar,“ segir í Hagsjánni.
En hvað segir Seðlabankinn?
„Verðbólguhorfur til skamms tíma hafa batnað frá nóvemberspá bankans. Verðbólga mældist tvö prósent í nóvember. Hún hefur aukist minna undanfarið en spáð var vegna þess að lækkun alþjóðlegs hrávöru- og olíuverðs og hækkun á gengi krónunnar hafa vegið á móti innlendum verðhækkunum.“
Sem sagt, það er mikið til í þessu, en hvers vegna lækka ekki vextir?
„Sterkari króna og hagstæðari alþjóðleg verðlagsþróun hafa veitt svigrúm til að hækka vexti hægar en áður var talið nauðsynlegt. Það breytir hins vegar ekki því að miðað við spá Seðlabankans frá því í nóvember er líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Hve mikið og hve hratt það gerist ræðst af framvindunni.“
Samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands var hagvöxtur 4,5% á fyrstu þremur fjórðungum ársins sem er í meginatriðum í samræmi við nóvemberspá Seðlabankans. Kröftugur bati heldur einnig áfram á vinnumarkaði.
Niðurstaðan: Einatt eru fundin rök til að lækka ekki vexti. Ástæða er til að minna á orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í þættinum Sprengisandur, um að hér tíðkist vaxtaokur.
(Unnið úr greiningu Hagsjár Landsbankans og yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans).