- Advertisement -

Borguðu tvo milljarða og fengu tuttugu til baka

Þessi fréttaskýring birtist í Mannlífi snemma árs 2008.

Þegar ríkissjóður seldi þau tæp fjörutíu prósent sem hann átti í Íslenskum aðalverktökum fór sérstæða atburðarrás af stað. Tekist var á um mikla hagsmuni. Þeir sem að lokum keyptu hlutinn borguðu um tvo milljarða fyrir hann. Nú hefur ein af þeim eignum sem fyrirtækið átti fyrir einkavæðinguna, Blikastaðalandið, verið selt á jafnvel tífalt kaupverðið, eða um tuttugu milljarða króna. Mikillar óánægju hefur gætt um söluna og er mál þess vegna núna hjá Hæstarétti.

Einn af þeim sem hefur stefnt ríkinu vegna viðskiptanna er Snorri Hjaltason, afhafnamaður í Reykjavík, og hann er allt annað en sáttur með hvernig staðið var af sölunni. Hann er sannfærður um stjórnendur Íslenskra aðalverktaka hafi getað haldið upplýsingum um rétta stöðu félagsins meðan á söluferlinu stóð. Það var jú þeir sem keyptu hlut ríkissjóðs þegar upp var staðið. “Þeir voru með frávikstilboð, sem okkur hinum var ekki gert að vera með,” segir Snorri.

Það eru Snorri, eða réttara sagt Trésmiðja Snorra Hjaltasonar hf., og JB Byggingafélag sem reka mál gegn fjármálaráðherra. Vilji er til viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda ríkisins vegna ólögmætrar framkvæmdar á lokuðu útboði á 39,86% hlut ríkisins í Íslenskum aðalverktökum hf., vegna kostnaðar sem JB Byggingafélag og Snorri urðu fyrir við að taka þátt í lokuðu útboði og senda inn tilboð í hlutinn. Þá er einnig krafist að fá bætt það tap sem þeir JB og Snorri telja sig hafa orðið af.  Ríkið krefst sýknu. Stutt frá sagt þá var málinu vísað frá Héraðsdómi og er nú til meðferðar í Hæstarétti.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Allt í felum

Þrátt fyrir óskir um að fá uppgefið hvað VBS-banki borgaði fyrir Blikastaðalandið, sem er um 150 hektarar og rúma 20.000 þúsund íbúðir, hefur ekkert verð verið gefið upp. Er sagt vera trúnaðarmál. Viðmælendur Mannlífs eru sannfærðir um að verðið geti ekki verið lægra en fimmtán til tuttugu milljarðar króna. Blikastaðalandið var meðal eigna Íslenkra aðalverktaka þegar ríkið seldi sinn hlut og ef mat viðmælenda Mannlífs er rétt er ljóst að ríkissjóður hefur orðið af verulegum fjármunum, vel á annan tug milljarða. Hærri fjáhæð en nemur Sundabraut, það er eyjaleiðinni.

Undirbúningur sölunnar

Ríkisstjórnin samþykkti 9. febrúar 1996 verklagsreglur um framkvæmd einkavæðingar. Reglunum var ætlað að tryggja aðgang og tækifæri allra. Við sölu ríkissjóðs á hlutnum í íAV var rætt við Landsbankann um söluna, auglýsingar, kynningar og það sem mest var um vert; verðmatið.

Jón Sveinsson, fulltrúi Framsóknarflokksins í framkvæmdanefndinni um einkavæðinguna var líka formaður stjórnar Íslenskra aðalverktaka. Á fundi 24. febrúar 1996 lýsti hann því yfir að hann myndi segja sig frá verkefninu þegar fjárfestar skiluðu tilkynningum um að þeir hygðust bjóða í hlutinn. Ólafur Davíðsson, formaður nefndarinnar, taldi ekki ástæðu til að frekari ráðstafanir þó stjórnarformaður verktakanna væri samtímis fulltrúi seljendans, það er ríkisins.

Það var síðan tæpum mánuði síðar, eða 6. mars að framkvæmdanefndinni berst bréf frá starfsmönnum og stjórnendum Íslenskra aðalverktaka, þar sem sagt var að hópurinn væri að undirbúa tilboð í hlut ríkissjóðs í fyrirtækinu og þá um leið var tilkynnt að þess vegna gætu starfsmenn og stjórnendur ekki sinnt því hlutverki að kynna fyrirtækið fyrir þeim sem kynnu að keppa við starfsmennina og stjórnenduna um að eignast ríkishlutann. Þegar hér var komið sagði Jón Sveinsson sig frá störfum fyrir nefndina.

Sú staðreynd að starfsmennirnir og stjórnendurnir voru meðal þeirra sem buðu í hlut ríkisins í Íslenskum aðalverktökum leiddi af sér efasemdir um að aðrir áhugasamir stæðu þeim jafnfætis. Í fundargerð framkvæmdanefndarinnar frá 14. mars 2003 kemur fram að Guðmundur Ólafsson, hjá Landsbankanum, hafi farið fundað með áhugasömum bjóðendum, en þeir voru átta. Þar var rætt um stöðu starfsmannanna og að keppendum þeirra um hlutinn hafi þótt staða þeirra sem innherja óeðlileg. Fulltrúum ríkisins fannst lítð hægt að gera við því.

Tilboð berast

Fjögur tilboð bárust í hlut ríkisins í Íslenskum aðalverktökum, JB Byggingafélag og Trésmiðja Snorra Hjaltasonar buðu saman, 3,31 krónur fyrir hvern hlut. Jarðboranir buðu 4,02 krónur og Joco ehf, fyrirtæki í eigu Jóns Ólafssonar, bauð 4,20 á hlut. En það var Eingarhaldsfélagið AV erhf.  sem vakti athygli með sínu tilboði, en það er félag starfsmanna og stjórnenda. Tilboð þess félags var nokkuð frábrugðið hinum, en tilboðið hljóðaði upp á 3,20 til 3,69 á hvern hlut. Forsendur verðsins voru tengdar skilyrðum. Þrátt fyrir efasemdir um að starfsmenninrir hefðu haft meiri og gleggri upplýsingar um Íslenska aðalverktaka var niðurstaða framkvæmdanefndarinnar að gera ekkert með það.

JB Byggingafélag og Snorri Hjaltason gerðu athugasemdir við það. En það var ekki allt. Starfsmaður Landsbankans, Sigurður Atli Jónsson, skýrði frá að bankinn veitti félagi starfsmanna ráð og þjónustu og að auki taldi hann sig ekki getað starfað lengur þar sem hann var stjórnarmaður í Atorku, félagi sem átti hlut í Jarðborunum. Baldri Guðlaugssyni þótti þetta ekki frágangssök, en annar nefndarmaður, Sævar Þór Sigurgeirsson leit alvarlegri augum á málið.

Verðbréfastofan kemur að málinu

Verðbréfastofunni var falið að meta tilboðin. Niðurstaðan varð sú að tilboð starfsmanna Íslenskra aðalverktaka var talið best. En það var ekki strax. Efast var um tilboðið og alla fyrirvarana sem það hafði, en að lokum fór svo að 2. maí 2003 var undirritaður samningur milli ríkisins og Eignarhaldsfélag AV ehf. Um kaup á 39,8577% af útgefnu hlutafé Íslenskra aðalverktaka hf. Hver hlutur kostaði 3,69, sem leiddi af sér kaupverð upp á rétt rúma tvo milljarða.

Nú, rúmlega fjóru og hálfu síðar hafa hinir nýju eigendur selt Blikastaðalandið til Verðbréfastofunnar á fjárhæð sem kann að vera allt að tífalt það verð sem ríkið fékk fyrir sinn hlut þegar starfsmenn Íslenskra aðalverktaka keyptu af ríkinu.

Sem fyrr segir var kröfum JB Byggingfélags og Snorra Hjaltasonar um ólögmæti útboðsins vísað frá dómi. Málskostnaði var skipt milli deilenda. Dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem Ingimundur Einarsson dómari kvað upp, var áfrýjað til Hæstaréttar og nú er beðið niðurstöðu hans.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: