- Advertisement -

Borgir á Akureyri kosta meira en Brussel

Fréttin, um að Fiskistofa hafi enn á leigu, og muni hafa í nokkur ár, 750 fermetra skrifstofu í Hafnarfirði, án þess að hafa hin minnstu not fyrir, vakti eðlilega mikla athygli.

Leiguverðið þar er tvær milljónir á mánuði. Það er fyrir tómt húsnæði. Leigusamningurinn er bindandi út árið 2025. Það er rétt um 25 milljónir á ári, út árið 2025.

Miðjan birti fréttaskýringu um Borgir á Akureyri, þar sem Fiskistofa er nú til húsa. Sjá hér.

Þar sagði meðal annars: „Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, lá ekkert á skoðun sinni á því af hverju hún er á förum úr húsinu:„Ástæðan fyrir því að við erum að flytja er sú að við þurfum að borga gríðarlega háa leigu, yfir 4000 krónur á fermetrann, sem er mjög hátt leiguverð – svipað og á Manhattan í New York. Þetta er meira en svona lítil stofnun ræður við og skelfileg nýting á skattfé almennings,“ sagði Krístín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisráðs, en ráðið flutti út sökum hversu dýrt var að leigja í Borgum.

Borgir líka dýrari en Berlín

Leiguverð á fermetra þar var þá um 4.500 krónur, eða tæp milljón á mánuði fyrir þá 226 fermetra sem stofnunin hefur til umráða. Það er um það bil fjórfalt hærra verð en greitt er fyrir fermetrann í öðru skrifstofuhúsnæði á Akureyri, í álíka fjarlægð frá miðbænum og Borgir eru, samkvæmt nýlegri könnun Viðskiptablaðsins.

Leiguverðið í Borgum er líka töluvert hærra en í fjármálahverfi Berlínar, á vinsælu hafnarsvæði Kaupmannahafnar og í Evrópuhverfinu í Brussel. Það er ekki fyrr en komið er í hjarta fjármálahverfis New York borgar að hærra verð sést, en þó ekki nema liðlega þúsund krónum hærra á fermetra en í Borgum á Akureyri, sem ríkið tók á leigu fyrir tíu árum, með 25 ára óbreytanlegum og óuppsegjanlegum samningi við fasteignafélag. Lauslega áætlað er talið að Fiskistofa þurfi um það bil þúsund fermetra húsnæði á Akureyri en leiga fyrir slíkt í Borgum yrði þá hátt í fjórar milljónir á mánuði.

Háskólinn á Akureyri er meðal leigjenda að Borgum. Leiguverðið er skólanum erfitt. Stærstur hluti af húsnæði Háskólans á Akureyri er í ríkiseigu en þess utan leigir skólinn þrjár hæðir í Borgum, sérhönnuðu skrifstofuhúsnæði við hlið Háskólans og er skólinn stærsti leigutakinn í Borgum. Í viðtali sagði þáverandi rektor, Stefán B. Sigurðsson, að skólinn greiddi um 130 milljónir króna á ári í húsaleigu og er tíund prósent þeirra peninga sem skólinn fær til reksturs, og er því mjög hár hluti. Samningurinn er verðtryggður og fylgir verðlagi.

Stefán sagði að þessar háu húsaleigugreiðslur þýða að skólinn verði að skera niður á öðrum sviðum. Stefán sagði leiguna þurfa að lækka um allt að helming. Þannig myndu sparast um 60 til 70 milljónir á ári og það myndi skipta sköpum fyrir reksturinn.

Of mikil dramatík, sagði forsætisráðherra.

Varðandi flutning Fiskistofu sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra og Miðjan birti: „Það var ekki tilefni til, til að búa til þessa dramatík í málinu.“ Hann sagði umfjöllunina um flutning Fiskistofu hafa verið þannig, að halda mætti að til stæði að flytja allt starfsfólkið norður á einu bretti. „Setja þau uppí rútu og keyra þau norður. Það er búið að lýsa því yfir að höfuðstöðvarnar verða fluttar, eftir sem áður verður fjöldi starfa í Reykjavík, og raunar er Fiskistofa á fimm stöðum á landinu.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: