Sanna Magdalena Mörtudóttir hefur ekki leynt vilja sínum til að útsvar verði lagt á fjármagnstekjur. Mogginn, þar sem þessi hugmynd þykir hin allra versta, tók hana tali.
Í frétt Moggans segir: Spurð um mögulegar tekjur af álagningu útsvars á fjármagnstekjur segir Sanna að ef skoðaðar séu tölur frá í fyrra sé áætlað að borgin hefði getað fengið tæpa 6,8 milljarða í borgarsjóð og að öll sveitarfélögin í heild hefðu fengið rúmlega 17 milljarða ef útsvar hefði verið lagt á fjármagnstekjur.
„Sjálfstæðismenn tala um þetta sem skattahækkun sem er ekki rétt, þarna er ekki um neina hækkun að ræða, heldur að allar tekjur beri sömu skatta, hvort sem það eru fjármagnstekjur eða launatekjur. Ég get því ekki séð þetta sem hækkun, heldur að það sama gildi yfir alla,“ segir hún.
Sanna bendir á að fjármagnstekjuskattur sé t.d. lagður á einstaklinga sem fá greiddan arð frá fyrirtækjum, einstaklinga sem selt hafa fyrirtæki eða hluti í þeim með söluhagnaði, einstaklinga sem hafa miklar leigu- eða vaxtatekjur og ekkert af þessu dragi úr fjárfestingagetu fyrirtækja. „Það sem dregur úr fjárfestingagetu fyrirtækja fyrst og fremst er hversu mikinn arð eigendur taka úr rekstrinum til að greiða sér,“ segir Sanna.
Þá segir hún um þá gagnrýni að gengið sé á sparnað almennings með slíkri skattheimtu að það séu þrep í fjármagnstekjuskatti „til að halda vöxtum af venjulegum sparnaði utan skattheimtu og við gerum engar tillögur um að afnema þau, það má jafnvel skoða það að hækka þau lítillega. Til þess skapast svigrúm þegar ofurtekjur hinna ofsaríku verða skattlagðar í sama hlutfalli og lágar tekjur fólks sem er að berjast fyrir að eiga í sig og á.“