„Það er miður að Reykjavíkurborg skuli ganga fram með þeim hætti að rýra kjör eldri borgara enn frekar.“
Borgarstjórn hefur afturkallað frímiða eldri borgara á söfn borgarinnar. Fólkið fær nú aðeins einn frían aðgang á ári.
„Menningarkortið veitir aðgang að öllum reykvískum söfnum, auk fjölda afslátta á önnur söfn og aðra viðburði. Með tillögunni er lagt til að komið verði á menningarkorti fyrir eldri borgara sem kosti því sem jafngildi einsskiptis aðgangi að söfnum. Sú ráðstöfun að gefa öllum 67 ára og eldri frítt á söfn hefur ekki skilað sér í teljandi aukningu í aðsókn þessa aldurshóps, eins og vonast var eftir. Ráðgert er að ráðast í markaðsátak til að kynna kortið, í samstarfi við Félag eldri borgara í Reykjavík,“ segir í bókun meirihlutans.
„Það er jákvætt að öryrkjar og börn og unglingar fái ókeypis á söfn borgarinnar. Hins vegar á að afnema þau réttindi sem eldri borgarar hafa haft hingað til þannig að þeir muni ekki fá frítt inn á söfn lengur. Það hefur ótvírætt gildi fyrir eldri borgara og þá sem hættir eru að vinna að geta notið menningarlífsins og skoðað t.d. listasöfnin í borginni, heimsótt Árbæjarsafnið og Sjóminjasafnið en það gæti orðið liður í að draga úr félagslegri einangrun og eflt lýðheilsu þessa aldurshóps,“ segir Kolbrún Baldursdóttir Flokki fólksins.
Hún segir einnig: „Því miður hafa ekki allir í þessum aldurshópi ráð á að fara á söfn eða kaupa menningarkort þó svo það verði á afslætti. Frír aðgangur fyrir eldri borgara er hvati fyrir starfsfólkið að fara á söfn með hópinn eða frá dagvist aldraðra. Mjög margir eldri borgarar geta ekki einu sinni leyft sér að fara á söfn því miður. Ef fara á skipulagða ferð á vegum félagsmiðstöðvar gæti komið í ljós að einhver á ekki kort og fer því ekki með. Til að koma í veg fyrir tekjumissi af ferðamönnum í þessum aldurshópi sem fá þá líka frítt inn mætti hafa þann hátt á að sækja þarf um menningarkortið sem yrði endurgjaldslaust hjá félags- eða þjónustumiðstöðvum. Það er miður að Reykjavíkurborg skuli ganga fram með þeim hætti að rýra kjör eldri borgara enn frekar.“