- Advertisement -

Borgin of blönk fyrir Flóasiglingar

STJÓRNMÁL Minnihlutinn í borgarstjórn vill ekki að borgin verji peningum til fyrirhugaðra siglina milli Reykjavíkur og Akraness.

„Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa stutt að farið verði í tilraunverkefni á reglubundnum siglingum yfir Faxaflóa á milli Akraness og Reykjavíkurborgar með þeim skýra fyrirvara að fjármunir skattborgara í Reykjavík verði ekki notaðir í verkefnið enda ekki svigrúm til slíks,“ segir í bókun borgaráðsmanna Sjálfstæðisflokksins.

„Á sama tíma og verið er að skera niður framlög til stórra málaflokka eins og skólakerfisins og velferðarmála er útilokað að stofnað sé til nýrra útgjalda sem ekkert hafa með reglulega eða lögbundna starfsemi að gera. Í auglýsingunni er opnað fyrir að sveitarfélögin komi að þessu verkefni með fjárhagslegum stuðningi. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks vilja að talað sé skýrt. Svo er ekki og þess vegna lýsum við enn einu sinni yfir að við munum ekki styðja að fjármunir renni til þessa verkefnis. Komi hins vegar fram áhugasamir sem eru tilbúnir til þátttöku í tilraunaverkefni af þessu tagi á eigin kostnað getur það reynst áhugavert. Rétt er þó að hafa í huga að um þessa leið gilda ekki sérleiðisreglur. Hver sem er gæti, hvenær sem er, hafið siglingar á milli þessara tveggja sveitarfélaga,“ segja þeir jafnframt.

Framsókn er á svipuðum nótum og bókaði: „Á fundi borgarráðs 28. janúar sl. studdi borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina að auglýst yrði eftir lysthafendum í tilraunaverkefni um flóasiglingar en gerði þann fyrirvara að hann myndi ekki styðja að fjármunir skattborgara í Reykjavík fari í verkefnið. Nú er opnað fyrir þann möguleika að sveitarfélögin taki til athugunar fjárhagslegan stuðning við þann rekstraðila sem verður valinn. Fjárhagsstaða borgarinnar býður ekki upp á að borgin taki þátt í tilraunaverkefni sem þessu ef nota á skattfé borgarbúa í það.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: