Leiðrétting hefur verið send út vegna orða Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra um að ekki hafi náðst samkomulag við skipulagsyfirvöld í Reykjavík um mislæg gatnamót á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar.
Hann er sagður hafa sagt að í samgönguáætlun væri reiknað með að gera þar mislæg gatnamót og að Reykjavík standi þannig í vegi fyrir mikilvægum umbótunum.
Fullyrt er að mislægum gatnamótum vegamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar hafi verið hafnað af borgarráði árið 2006. Það var einna helst gert vegna þess að flytja þyrfti vestari kvísl Elliðaánna úr farvegi sínum vegna framkvæmdarinnar. Þeim var einnig mótmælt harðlega af íbúasamtökum Bústaðahverfis á sínum tíma.
Því voru unnar tillögur að umfangsminni úrbótum á gatnamótunum og niðurstaðan varð sú að loka vinstri beygju af Bústaðavegi á Reykjanesbraut á annatímum. „Síðan þá hafa ekki borist erindi um gatnamótin frá Vegagerðinni til Reykjavíkurborgar.“
Að auki er bent á að verkefnið er ekki á samgönguáætlun Alþingis fyrir 2015 – 2018 sem samþykkt var af Alþingi 2016 né á langtímaáætlun samgöngumála 2011 – 2022 sem samþykkt var af Alþingi 2012. „Í tillögu til samgönguáætlunar fyrir 2015 – 2026 er hins vegar lagt til að gerð verði mislæg gatnamót á gatnamótunum á þriðja tímabili og gert ráð fyrir einum milljarði í það verkefni á árunum 2023 – 2026. Sú tillaga hefur ekki verið samþykkt af Alþingi. Það verður því ekki séð að það sé rétt að segja að verkefnið sé nú þegar á samþykktri samgönguáætlun.“
Jón Gunnarsson samgönguráðherra sagði einnig að gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar vera hættulegustu gatnamót landsins. „Það var hugsanlega rétt fyrir tíu árum en ekki frá því að gatnamótunum var breytt í fjögurra fasa gatnamót árið 2005. Samkvæmt skýrslu Samgöngustofu urðu alls 166 slys og óhöpp (með og án meiðsla) á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar á árunum 2011-2015. Á tímabilinu urðu níu umferðarslys með meiðslum á gatnamótunum. Þau voru í 10. sæti á lista gatnamóta á landsvísu hvað slysafjölda með meiðslum varðar, þótt þau væru ein þau fjölförnustu.“
Breytingar voru gerðar á árinu 2005 með ljósastýringu gatnamóta Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. „Í breytingunum fólst m.a. uppsetning á vinstribeygjuljósum fyrir umferð af Kringlumýrarbraut. Í rannsókn frá 2010 kemur fram að óhöppum fækkaði á gatnamótunum um 37% ef tekin eru þriggja ára tímabil fyrir og eftir framkvæmdir. Alvarlegustu slysunum fækkaði hlutfallslega meira en slysum án meiðsla eftir endurbæturnar. Sá árangur sem náðst hefur við fækkun vinstribeygju óhappa með meiðslum eftir endurbæturnar sumarið 2005 er eftirtektarverður. Ekkert slíkt óhapp varð fyrstu þrjú árin eftir endurbæturnar en voru að meðaltali 4,7 óhöpp á ári síðustu þrjú árin fyrir endurbætur.“