Stjórnmál

Borgin harmar óbilgirni ráðuneytis Sigurðar Inga

By Miðjan

January 06, 2022

„Við hörmum þá óbilgirni sem ráðuneyti og Alþingi sýna með því að færa þjóðvegi yfir til sveitarfélaga án þess að fjármunir fylgi með vegna snjómoksturs, þrifa, langtímaviðhalds og annars rekstrar,“ bókuðu fulltrúar meirihluta borgarstjórnar á borgarráðsfundi í dag.

„Byggir það á lögum sem eru klárlega barn síns tíma en ótrúlegt er að hafi ekki verið breytt, þrátt fyrir að athygli hafi verið vakin á. Við hvetjum til þess að úr þessu verði bætt hið fyrsta og minnum á fyrirvara borgarinnar við samninga um skilavegi,“ bókuðu þau.

„Samningar hafa ekki tekist um að fjármunir, sem Vegagerðin hefur haft til reksturs og viðhalds þeirra vega sem færast til Reykjavíkurborgar við yfirfærslu veghalds samkvæmt vegalögum, 1. janúar 2022 flytjist til borgarinnar. Í greinargerð með lögum nr. 14/2015 kemur fram sá vilji löggjafans að „ekki [sé] gert ráð fyrir að í yfirfærslunni felist aukinn kostnaður fyrir sveitarfélögin“ og að „gert er ráð fyrir að það fjármagn sem nú er á hendi Vegagerðarinnar vegna veghalds þessara vega færist yfir til sveitarfélaganna samhliða yfirfærslunni á grundvelli samninga.“

„Því lítur Reykjavíkurborg svo á að þeim þætti sem lýtur að fjármögnun reksturs og viðhalds umræddra vega til framtíðar sé ólokið. Er því fyrirvari gerður við undirskrift þessa samkomulags og áskilnaður um allan rétt sveitarfélagsins til að leita allra leiða til að sækja leiðréttingu á þessu.“