- Advertisement -

Borgin beygir sig gegn betur settu fólki en mætir þeim fátækum með stálhnefa

„Það er jákvætt að hægt sé að leysa úr lóðamálum á opna svæðinu við Vesturbæjarlaug með nýrri deiliskipulagstillögu. Tillagan gerir ráð fyrir að almenningssvæðið stækki umtalsvert frá því sem reyndin er nú með því að girðingar sem hafa staðið í áratugi verði fjarlægðar. Málið er flókið og á sér langa sögu. Í þeim tilvikum þar sem íbúar vilja halda í hluta af lóðunum þurfa þeir að greiða fullt verð fyrir,“ segir meirihluti borgarráðs vegna eftirgjafar borgarinnar vegna stækkunar lóða við Einimel.

Sanna Magdalena Mörtudóttir Sósíalistaflokki sat ekki þegjandi undir þessu:

„Sósíalistar mótmæla því að lóðamörk við Einimel 22-26 séu færð út og yfirtaki hluta af lóð við Vesturbæjarlaug sem er í eigu borgarbúa. Íbúar í einbýlishúsum við Einimel reistu girðingar inn fyrir það svæði og hindruðu þannig aðgang að almannalóð. Í stað þess að segja að slíkt sé óboðlegt ætlar borgin að láta undan og stækka lóðir viðkomandi. Með því er verið að setja slæmt fordæmi sem sendir þau skilaboð að með því að taka almannalóðir af borginni sé möguleiki á að hún láti undan. Fulltrúi Sósíalista veltir því fyrir sér hvar slíka undangjöf er að finna gagnvart fátækum borgarbúum sem er oft og tíðum mætt með stálhnefa.“

Kolbrún Baldursdóttir, Flokki fólksins, hafði þetta að segja:

„Færa á lóðarmörk við Einimel 18-26 sem nemur 3,1 m og minnkar lóð Vesturbæjarlaugar sem því nemur. Íbúar fá leyfi meirihlutans til að stækka lóð sína inn á tún Vesturbæjarlaugar. Ár er liðið frá því að tillögu um breytingu á lóðamörkum við Vesturbæjarlaug var fagnað og tilkynnt að sátt væri um málið. Samkvæmt athugasemdum í gögnum er greinilegt að þessi sátt var eingöngu sátt á milli meirihlutans og lóðareigenda. Haft var eftir meirihlutanum í bókun frá 2022 að með breytingunni stækkaði túnið miðað við raunverulega stöðu síðustu áratuga. Flokki fólksins finnst þetta sérkennileg röksemdafærsla því borgin á þetta land. Íbúar við Einimel fá leyfi meirihlutans til að stækka lóð sína inn á tún Vesturbæjarlaugar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst verulega hæpið að leyfa stækkun lóða sem gengur á almennt grænt svæði. Eftir auglýsingu tillögunnar kemur fram mikil andstaða sem er eðlilegt enda fer landið úr almenningseigu í einkaeigu. Hér er um dýrmætt svæði að ræða og verðmæti sennilega það hæsta á öllu landinu. Landrými á þessu svæði er eftirsótt. Flokkur fólksins telur að þarna sé verið að minnka möguleikana á að skapa fjölbreytt útivistarsvæði við Vesturbæjarlaug.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: