- Advertisement -

Borgin í ábyrgðum fyrir 100 milljarða

„Hér er um hreina ábyrgð borgarsjóðs að ræða upp á eitt hundrað milljarða króna. Hundrað þúsund milljónir.“

„Tilgangurinn verði að draga kerfisbundið úr áhættum borgarsjóðs af lántökum fyrirtækjanna,“ segir í tillögu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.

Dagur leggur til að endurskoðaðar verði reglur borgarinnar um veitingu ábyrgða á skuldbindingum félaga í B-hluta samstæðu Reykjavíkurborgar. Hann vill að stofnaður verði sérstakur sjóður á vegum borgarinnar, Ábyrgðasjóður; „…til að tryggja getu borgarinnar til að mæta þeim skyldum sem leiða af veitingu ábyrgða ef fyrirtæki í eigu borgarinnar sem notið hafa ábyrgðar á endurgreiðslu lána geta ekki að hluta eða öllu leyti staðið undir greiðslu­skuldbindingum sínum.“

„Hér staðfestist hversu mikil ábyrgð borgarinnar er af dótturfélögum sínum. Hér er um hreina ábyrgð borgarsjóðs að ræða upp á eitt hundrað milljarða króna. Hundrað þúsund milljónir. Það er því nauðsynlegt fyrir borgina að vera með varasjóð til að mæta mögulegum áföllum hjá fyrirtækjum hennar,“ segir í bókun Sjálfstæðisflokks og Miðflokks.

„Ábyrgðarsjóður endurspeglar fyrst og fremst ráðdeild í fjármálum borgarinnar. Hér er þó aðeins verið að raungera það sem gert hefur verið um árabil enda hefur handbært fé borgarinnar verið mikið á undanförnum árum til þess að geta varið sig fyrir stórum og smáum áföllum í efnahagslífi. Þessum ábyrgðarsjóði er því ætlað að vera nokkurskonar varasjóður sem gripið verður til ef fjárhagur borgarinnar versnar skyndilega,“ segir í bókun meirihlutans.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í tillögu borgarstjórans segir ennfremur:

„Gert er ráð fyrir 3 ma.kr. stofnframlagi í sjóðinn en auk þess renni tekjur af ábyrgðargjaldi sem áætlaðar eru um 579 m.kr. árið 2019 og 10% af tekjum af arðgreiðslum sem áætlaðar eru um 182 m.kr. árið 2019 í sjóðinn. Nánari útfærsla á þessari tillögu verður lögð fyrir borgarráð.“

„Auk beinna ábyrgða „ber borgin mikla ábyrgð á Félagsbústöðum í heild“ eins og segir í greinargerð. Ófjármagnað er gat í fjárhagsáætlun Félagsbústaða sem ekki hefur verið leyst. Þá er bent á að tekjur OR í erlendum gjaldeyri voru á síðasta ári 6,2 milljarðar en vaxtagjöld og afborganir 11,6 milljarðar og er því gengisáhætta til staðar. Eðlilegast væri að OR fjármagnaði sig án ábyrgðar borgarsjóðs í stað þess að borgin þurfi að stofna sérstakan ábyrgðarsjóð,“ segir einnig í bókun Sjálfstæðisflokks og Miðflokks.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: