- Advertisement -

Borgarstjórn skrapar botninn

Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokks.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og borgarfulltrúi Flokks fólksins ,bókuðu á síðasta fundi forsætisefndar, hversu aum staða borgarstjórnar er í augum landsmanna. Byrjum á Sjálfstæðisfokki:

„Samkvæmt könnuninni nýtur Reykjavíkurborg minnsta trausts allra stofnana í þjóðarpúlsi Gallups. Ár eftir ár hefur Reykjavíkurborg skrapað botninn í könnunum. Sú ítrekaða falleinkunn sem Reykjavíkurborg hefur fengið um árabil hefur ekki orðið hvatning til að bæta þjónustu við borgarbúa, auka gagnsæi og samráð við íbúa í mikilvægum málum. Borgarbúar fá seint svör við erindum sínum og hafa átt erfitt með að fá viðtal við borgarstjóra sem ekki hefur fetað í fótspor forvera sinna sem buðu upp á vikulega viðtalstíma fyrir borgarbúa. Það er ekki skrýtið að það litla traust sem borgarbúar hafa haft til borgarstjórnar heldur áfram að minnka þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga.“

Og svo er það Kolbrún Baldursdóttir Flokki fólksins:

„Kannanir sýna að traust til borgarráðs er nánast ekki neitt. Hér er vissulega verið að tala um meirihlutann í borgarstjórn sem hefur öll völd og fellir eða vísar frá tillögum sem koma frá minnihlutanum. Borgarstjórn Reykjavíkur nýtur jafnframt minnst trausts þeirra stofnana sem mældar eru í þjóðarpúlsinum – 13 prósent landsmanna bera mikið traust til hennar, sem er átta prósentustigum minna en í fyrra. Fréttir af samskiptum, samráðsleysi og óheilindum hafa skemmt mikið. Braggamálið og fleiri mál af svipuðum toga skemmdu mikið fyrir meirihlutanum á síðasta kjörtímabili. Borgarbúar eru orðnir langþreyttir á slæmum samgöngum í borginni og ótryggum almenningssamgöngum. Svikin vegna leikskólamála og manneklan í leikskólum borgarinnar hefur valdið barnafjölskyldum miklum erfiðleikum. Það er ekki skrítið að traustið sé ekki meira.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: