Óli Björn skrifar grein í Moggann í dag, eins og hann gerir alla miðvikudaga. Í dag skrifar hann um húsnæði, leigu og séreignir.
„Það hefur lengi verið draumur samfélagsverkfræðinga að breyta þjóðfélaginu. Í framtíðarheimi þeirra heyrir séreignarstefnan sögunni til. Allir eiga að búa í leiguhúsnæði,“ skrifar þingmaðurinn.
Martröð almennings
„Draumurinn um land leiguliða er martröð almennings. Í nýrri könnun Íbúðalánasjóðs kemur fram að aðeins 8% leigjenda eru á leigumarkaði vegna þess að þeir vilja vera þar og 64% segjast leigja af nauðsyn, ekki löngun. Samkvæmt upplýsingum Íbúðalánasjóðs hafa aldrei jafn fáir verið á leigumarkaði af fúsum og frjálsum vilja,“ segir á einum stað í greininni.
„Vegna þessa á séreignarstefnan undir högg að sækja. Og þess vegna er lítið hugað að leiðum til að lækka byggingarkostnað, s.s. með breytingum á byggingarreglugerðum, lækka margvísleg gjöld sveitarfélaga, breyta lögum um neytendalán eða beita nýjum aðferðum við að aðstoða fólk að eignast eigið húsnæði,“ segir í greininni.
Lóðaskortur breytir samfélaginu
„Andúðin á séreignarstefnunni er hugmyndafræðilegur grunnur að stefnu Reykjavíkurborgar í skipulagsmálum. Nú er það ekki talin ein grunnskylda borgaryfirvalda að tryggja nægilegt framboð á byggingarlóðum á hagstæðu verði. Með lóðaskorti er verið að breyta samfélaginu – samfélagsverkfræðingarnir hafa tekið völdin.
Draumurinn um land leiguliðanna kann að vera handan við hornið. Kostnaðurinn verður fyrst og síðast borinn af millistéttinni og láglaunafólki. Grafið er undan annarri meginstoð eignamyndunar launafólks – verðmæti eigin húsnæðis.“