Sögðu fullyrðingar Vigdísar vera ýmist rangar og hæpnar.
Vigdís Hauksdóttir skapraunar meirihlutanum í Reykjavík ítrekað.
„Stofnunum ríkisins, Persónuvernd, Hagstofu Íslands, Þjóðskrá, dómsmálaráðuneytinu, Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, Póst- og fjarskiptastofnun og vísindasiðanefnd var þvælt inn í hina svokölluðu „kosningarannsókn“ sem Reykjavíkurborg stóð fyrir í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna. Aldrei fyrr á Íslandi hefur verið gerð álíka árás á lýðræðið í landinu. Nánast í hverri einustu stofnun loguðu rauð ljós,“ bókaði hún í borgarráði í gær.
„Fullyrðingar í bókun fulltrúa Miðflokksins eru ýmist rangar, hæpnar eða mjög gildishlaðnar,“ segir í andsvari meirihlutans.
Vigdís bókaði meira:
„Dómsmálaráðuneytið gerði alvarlegar athugasemdir auk Persónuverndar. Póst- og fjarskiptastofnun hafnaði beiðni Reykjavíkur um að senda smáskilaboð til kjósenda með þessum ákvörðunarorðum: Umsókn Reykjavíkurborgar, í samstarfi við Háskóla Íslands, um að fá undanþágu frá banni við óumbeðnum fjarskiptum er hafnað. En áfram var haldið.“
„Fullyrðingar sem draga í efa úrslit lýðræðislegra kosninga eru hins vegar jafnalvarlegar og þær eru fordæmalausar. Hafi einhver grun um að ágallar á framkvæmd kosninga séu með þeim hætti að ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna þarf að meðhöndla þær ávirðingar í samræmi við gildandi lög. Gildishlaðnar fullyrðingar um kosningasvik, líkt og bornar hafa verið fram í opinberri umræðu, eru ábyrgðarhluti í lýðræðissamfélagi,“ segir meðal annars í andsvarinu.
„Það er kristaltært að viljinn til þess að hafa áhrif á kosningarnar var keyrður áfram af ásettu ráði og verknaðurinn var fullframinn og tókst,“ sagði Vigdís Hauksdóttur í borgarráði.
Sem kunnugt er hefur hún kært borgarstjórnarkosningarnar til dómsmálaráðuneytisins.