- Advertisement -

Borgarstjóri flúinn í sumarfrí

„Það er ljóst að nýkjörinn formaður borgarráðs fær storminn í fangið á sínum fyrstu vikum í starfi.“ „Þetta verður langur fundur - svo mikið er víst.“

Hún er hörð stjórnarandstaðan í Reykjavík. Vigdís Hauksdóttir boðar langan átakafund í borgarráði í dag.

„Við í stjórnarandstöðunni fengum þær fréttir í gær að borgarstjóri væri flúinn í sumarfrí fyrir síðasta fund borgarráðs fyrir sumarhlé ráðsins.
Við erum búin að fá þau þrjú mjög svo umdeildu mál inn á dagskrá sem fjalla um algjöran áfellisdóm yfir störfum meirihlutans á síðasta kjörtímabili:

  1. Stjórnsýsla Reykjavíkurborgar: Óskað er eftir umræðu og yfirferð í borgarráði um álit umboðsmanns Alþingis um frumkvæðisathugun vegna húsnæðisvanda þeirra einstaklinga sem falla undir hugtakið „utangarðsfólk“, og þá sérstaklega þeirra sem glíma við fíknivanda, stundum samhliða geðrænum vanda og/eða líkamlegri fötlun, og eru ekki sjálfir færir um að leysa húsnæðismál sín.
  2. Stjórnsýsla Reykjavíkurborgar: Óskað er eftir umræðu og yfirferð í borgarráði vegna úrskurðar kærunefndar jafnréttismála gegn Reykjavíkurborg en borgin braut lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu borgarlögmanns í ágúst árið 2017.
  3. Stjórnsýsla Reykjavíkurborgar: Óskað er eftir yfirferð og umræðu í borgarráði um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, þriðjudaginn 5. júní 2018, í máli nr. E-3132/2017, þar sem Reykjavíkurborg er dæmd til að greiða miskabætur vegna ólögmætrar áminningar skrifstofustjóra á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara á hendur fjármálastjóra Ráðhúss Reykjavíkur.

Annað hvort er borgarstjóri kjarklaus maður að vilja ekki svara fyrir þessi mál á fundinum eða þá hitt að slá á málunum á frest því æðstu embættismenn borgarinnar þ.m.t. staðgengill borgarstjóra eru allir vanhæfir í málum 2 og 3

Það er ljóst að nýkjörinn formaður borgarráðs fær storminn í fangið á sínum fyrstu vikum í starfi – svo virðist vera að hún sitji uppi með að þurfa að svara fyrir ótrúlega valdbeitingu gamla meirihlutans sem hefur verið dæmdur af vekum sínum hjá hvorki meira né minna en þremur aðilum sem tekið hefur verið mikið mark á í samfélaginu hingað til:

  1. Umboðsmaður Alþingis
  2. Kærunefnd jafnréttismála
  3. Héraðsdómur Reykjavíkur

Þetta verður langur fundur – svo mikið er víst.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: