Halldóra Mogensen skrifar:
Pælingar um skilyrðislausa grunnframfærslu (borgaralaun) á tímum covid.
Í kjölfar covid gefst okkur tækifæri til að endurhugsa grundvöll og uppbyggingu þeirra kerfa sem er ætlað að tryggja mikilvæga efnahagslega- og félagslega sátt. Sátt sem skiptir öllu máli til að auka samheldni á tímum þar sem sundrung virðist stigmagnast.
Þær efnahagsþrengingar sem heimsfaraldurinn hefur valdið kalla á nýja sýn á velferðarkerfið, nýja nálgun sem grípur alla í samfélaginu án skilyrða eða skerðinga. Að tryggja efnahagslegt öryggi allra á þessum óvissutímum er fjárfesting. Með því að vernda lífsafkomu fólks, verndum við hagkerfið og hvetjum til aukinnar nýsköpunar og sveigjanleika sem er nauðsynlegur til að byggja upp vinnumarkað framtíðarinnar. Við verðum að hætta að horfa aftur á bak til þess sem var og byrja að undirbúa það sem verður.