Nokkrir alþingismenn, að frumkvæði Eiríks Brynjólfssonar Pírata, hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar, um að fela Kristjáni Þór Júlíussyni, ráðherra mennta- og menningarmála, að kveða á um framtíðarhúsnæði Listaháskóla Íslands og leysa þannig til frambúðar þann húsnæðisvanda sem skólinn hefur búið við um langa hríð.
Skólinn á miklum vanda sökum hvernig þessum málum er fyrir komið. „Mikill kostnaður felst í því að vera með deildirnar dreifðar og algjör óvissa ríkir um framtíð skólans meðan húsnæðisástand hans er eins og það er. Miklar áhyggjur eru af myglusvepp í húsakynnum hans, en skólinn leigir bæði frá ríkinu og einkaaðilum og ver miklu fjármagni í aðstöðu sem hentar stofnuninni ekki. Tónlist er til dæmis kennd í húsi með lélegri kyndingu sem skortir hljóðeinangrun, leiklist er kennd án viðunandi leikrýmis, myndlistarkennslan er í gömlu sláturhúsi og svo mætti lengi telja,“ segir meðal annars í greinagerð þingmannanna. „Við bætist að í mörgum byggingum er ekkert aðgengi fyrir fatlaða, aukinn kostnaður hlýst af því að dreifa starfseminni og plássleysi og óvissa veldur því að ekki er hægt að gera góðar langtímaáætlanir. Óvíst er hvort skólinn fái nægt fjármagn til að halda áfram að leigja húsnæði en miklar hækkanir hafa verið á húsnæðismarkaði á sama tíma og skorið hefur verið niður hjá skólanum. Við bætist að nemendur greiða mun hærri skólagjöld en aðrir háskólanemendur á Íslandi þrátt fyrir gífurlegan mun á þeirri aðstöðu sem þeir þurfa að búa við. Það er því mjög brýnt að skólanum verði fundið hentugt húsnæði til framtíðar svo að hann geti þroskast og þróast með eðlilegum hætti og rækt hlutverk sitt með reisn,“ segir þar ennfremur.
Auk Eiríks eru eftirtaldir þingmenn með honum á tillögunni: Björn Leví Gunnarsson, Smári McCarthy, Halldóra Mogensen, Viktor Orri Valgarðsson, Ari Trausti Guðmundsson, Birgitta Jónsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir, Gunnar I. Guðmundsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.