Gunnar I. Birgisson skrifar í Moggann í dag. Hluti greinar Gunnars fjallar um kvótakerfið. Gunnar hefur skipt um skoðun hvað það varðar:
„Kvótakerfið er vinsælt deiluefni meðal þjóðarinnar og sitt sýnist hverjum. Ég hef verið dyggur stuðningsmaður þessa kerfis og stutt með ráðum og dáð. Nú eru hins vegar farnar að renna á mig tvær grímur,“ skrifar þessi fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
„Veiðiheimildum er úthlutað af ríkinu til útgerðanna til mjög langs tíma, á ríflega 10 krónur fyrir hvert þorskígildiskíló. Veiðiskylda útgerðanna er á bilinu 50-70% og útgerðirnar geta því framleigt 30-50% af úthlutuðum aflaheimildum til annarra kvótalítilla eða kvótalausra útgerða. En þá kemur að merg málsins, leiguverðið á þessum vægast sagt skrítna markaði er í kringum 200 krónur á hvert þorskígildiskíló. Ég tel að þetta hafi aldrei verið meiningin með kvótakerfinu,“ segir Gunnar og svo þetta:
„Tökum dæmi; útgerð sem aðallega er með uppsjávarkvóta og einnig botnfiskkvóta getur leigt botnfiskkvótann frá sér. Tvö þúsund þorskígildistonn gefa 400 milljónir í leigutekjur á ári, en greiðsla til ríkisins er 20 milljónir, þannig að nettó-ávinningurinn fyrir útgerðina er 380 milljónir króna. Það er því augljóslega hagkvæmara að leigja frá sér kvóta en veiða.“
Og: „Breyta þarf tilhögun kvótakerfisins til að skiptingin verði sanngjarnari fyrir ríkissjóð í slíkum tilfellum. Þetta er því miður í boði míns flokks, Sjálfstæðisflokksins.“