Fréttir

Bóndi með of þröngt fjós krafðist skaðabóta

By Miðjan

January 05, 2016

Samfélag Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti hefur staðfest synjun Matvælastofnunar á beiðni bónda á Norðurlandi eystra sem hafði um nokkurra ára skeið haldið yfir 100 kýr í fjósi sem var hannað fyrir 92 kýr með 92 legubásum. Matvælastofnun hafði ítrekað gert athugasemdir við fjölda kúa í fjósi bóndans án þess að bóndinn sinnti því í nokkru. Bóndanum var að lokum veittur þriggja mánaða lokafrestur til úrbóta í mars 2015 og fækkaði þá bóndinn loks gripum sínum í samræmi við fyrirmæli Matvælastofnunar.

Bóndinn hafði áður óskað eftir leyfi stofnunarinnar til að hafa 10 prósent fleiri kýr en bása í fjósi í 16 til 20 mánuði til viðbótar á meðan unnið væri að úrbótum og taldi synjun stofnunarinnar ólögmæta. Hann taldi nýjar reglur íþyngjandi og fór fram á að viðurkenndur yrði réttur hans til bóta vegna tekjutaps sem væri afleiðing af niðurskurði á bústofni. Þessari beiðni synjaði Matvælastofnun.

Ráðuneytið taldi að Matvælastofnun hefði enga heimild haft til að víkja frá ákvæðum laga og reglugerða varðandi fjölda kúa í fjósi. Synjun stofnunarinnar hefði því verið réttmæt. Árum saman hefði staðið í reglugerðum að í lausagöngufjósum þar sem eru mjólkurkýr skuli allar kýr geta legið samtímis á legubásum eða á til þess gerðu legusvæði. Ekki væri því um hertar reglur í þessu tilliti að ræða. Óljósar hugmyndir um stækkun fjóss eða nýbyggingar dygðu ekki til að réttlæta umframfjölda kúa um eins og hálfs árs skeið til viðbótar. Að lokum taldi ráðuneytið ekki ástæðu til annars en að bóndinn bæri sjálfur það tap sem hann taldi að hann hefði orðið fyrir vegna málsins. Synjun Matvælastofnunar var því staðfest.