Alþingi / „Við höfum einfaldlega ekki efni á því að reka stóru kerfin okkar með óbreyttum hætti og það er eitthvað sem var orðið ljóst fyrir Covid. Þarna er verkefni sem við getum ekki velt yfir á komandi kynslóðir. Það væri vond pólitík,“ sagði ráðherrann og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir í þingræðu í gærkvöld.
Þórdís Kolbrún talar skýrt. Eflaust er flestum hugsað til heilbrigðiskerfis og menntamála. Þar eru þegar miklar þrengingar. Og eins má spyrja hvort varaformaður Sjálfstæðisflokksins eigi einnig við samgöngur. Um samgönguáætlun sem stendur nú þegar þvert í koki Alþingis.
Forráðamenn fyrirtækja stigu fram í gær og fundu mjög að því að lausnirnar sem ríkisstjórnin boðaði vegna Covid 19 séu fæstar komnar til framkvæmda. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður þessa sama flokks, sætir ámælum fyrir að hafa ekki komið málum til framkvæmda. Þórdís Kolbrún kaus að láta sem ekkert sé og sagði:
„Við höfum gripið til afgerandi ráðstafana til að lágmarka höggið á fólk og fyrirtæki og stuðla að kröftugri viðspyrnu. Ég þarf ekki að útskýra þær í löngu máli því nógu langt mál er að telja upp nokkrar þær helstu: Hlutabótaleiðin, greiðsluskjól, laun á uppsagnarfresti, brúarlán, stuðningslán,“ sagði hún.
Til að gæta sanngirni er hér áframhald ráðherrans: „…lokunarstyrkir, frestun opinberra gjalda, jöfnun tekjuskatts á milli ára, barnabótaauki, stuðningur við fólk í atvinnuleit, átak í geðheilbrigðismálum, styrking fjarheilbrigðisþjónustu, frístundastyrkur fyrir tekjulága, sumarúrræði fyrir námsmenn, efling matvælaframleiðslu, markaðsátak í þágu ferðaþjónustu innan lands og erlendis, stórfelldur stuðningur við nýsköpun með auknum framlögum í Tækniþróunarsjóð, hækkun endurgreiðslna vegna rannsókna og þróunar, stofnun Kríu og tímabundinn stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki með því sem við köllum stuðnings-Kríu. Hér er ekki einu sinni allt upp talið en heildarmyndin blasir við: Á örfáum vikum hefur verið brugðist með afgerandi hætti við einum mesta samdrætti í okkar síðari tíma efnahagssögu.“
Varaformaður Sjálfstæðisflokksins vakti einnig athygli fyrir fúlan orðaleik, sem minnti á þegar Bjarni líkti sér við skyr, sagðist vera hrærður. Þórdís Kolbrún sagði: „Ekki er sopið Covid, þó að í ausuna sé komið.“