„Miðflokkurinn vill minnka ríkiskerfið, einfalda það og lækka skatta svo hjól atvinnulífsins geti snúist af fullu afli. Ryðja þarf þeim steinum úr vegi sem hindra öfluga atvinnusköpun,“ segir meðal annars í nýrri Moggagrein sem Karl Gauti Hjaltason sem skrifar.
Karl Gauti á nú í keppni við Birgi Þórarinsson um fyrsta sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi. Ljóst er að annar þeirra fellur – jafnvel báðir. Staða Miðflokksins er aum þessa dagana. Karli Gauta skolaði inn á þing sem frambjóðanda Flokks fólksins. Hann er einn af Klausturskörlunum.
Aftur að grein Karls Gauta:
„Heilbrigðiskerfið er að verða að óskapnaði. Sovétið er mætt og ríkisrekstur er kjörorð dagsins. Biðlistar og rándýrar utanstefnur sjúklinga og sýna eru helstu verkefnin. Innlendum aðilum er ekki treystandi, sér í lagi ef ríkisstimpillinn er ekki á launaseðli þeirra. Sveitarfélögin eru látin greiða hallarekstur hjúkrunarheimila og flýja nú óviðunandi aðstæður sem ríkisvaldið skapaði og viðheldur í rekstri þeirra. Spítalaþjónusta úti á landi heyrir nánast sögunni til og öllum landsmönnum er stefnt til höfuðborgarinnar ef þeir þurfa á henni að halda. Sjúklingar þurfa að fara í löng og erfið ferðalög. Kostnaðurinn við þetta fyrirkomulag er ómældur og sjaldnast er tekið með í reikninginn öll fyrirhöfnin, vinnutapið og tíminn sem fer í súginn, ekki síst fyrir aðstandendur.“