Boða verðhækkanir og uppsagnir
Þau fyrirtæki sem komin voru að eða yfir þolmörk útgjalda…
Davíð Oddsson bendir á að ekki séu öll fyrirtæki þess umkomin að geta staðið undir nýgerðum og samþykktum kjarasamningum.
„Þetta er athyglisvert einkum nú þegar heimtað er með nokkrum hávaða að fyrirtækin, hvernig sem þau eru stödd, taki hvert og eitt á sig launahækkanir sem miðstýrð samtök skrifuðu undir, hvort sem þau séu fær um það eða ekki,“ skrifar hann í leiðara dagsins.
Ekki fer á milli mála hvað er verið að boða:
„Kauphækkanir nú bættust við mikla kaupmáttarhækkun sem hér var orðin áður. Staðan hjá einstökum fyrirtækjum er mismunandi og víst munu allmörg þeirra í færum um að bæta útgjöldum á sig án þess að afla tekna á móti. En þau fyrirtæki sem komin voru að eða yfir þolmörk útgjalda fyrir samningsgerð og sitja undir hótunum hækki þau verð vöru sinnar hljóta að spyrja: Hvað skal þá gera? Svarið blasir við og fáir vilja heyra það og enn færri axla ábyrgð á svarinu.“
Af því sem segir í leiðaranum að SA á ekki stuðning Moggans eða aðstandenda þess. „Miðstýrð samtök“ segir í leiðaranum og fast er skotið að móðurskipi atvinnurekenda.
Á allra næstu dögum mun koma fram hvort mörg fyrirtæki muni ekki eða vilja ekki ganga í þeim takti sem ætlast er til. Og þá eru óvíst hver viðbrögð neytenda verða.
Stormspá er í kortunum.