Halldór Blöndal, fyrrverandi ráðherra og einn af dyggustu stuðningsmönnum Davíðs Oddssonar í áratugi, er ekki sáttur við sinn gamla foringja. Alls ekki. Halldór skrifar ádrepu í blað Davíðs, Moggann, þar sem hann skammast við Davíð. Slíkt er sjaldgæft meðal sjálfstæðismanna.
„Ég hef fundið það glöggt, að meðal sjálfstæðismanna er mikil ánægja yfir stöðu þjóðmála og forystu flokksins. Þrátt fyrir gjaldþrot Wow-air og hrun loðnustofnsins er svigrúm til að bæta lífskjör og lækka skatta. Menn taka eftir því að það er traust milli formanna stjórnarflokkanna, sérstaklega Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar, og skilja af reynslunni að það er forsendan fyrir því, að áfram megi vel takast um stjórn þjóðmála. Saman fer sterk staða þjóðarbúsins, meiri kaupmáttur og jafnvægi í efnahagsmálum.“
Davíð er ákveðinn andstæðingur Bjarna og opinbera sífellt þá skoðun sína. Það eru skrif Davíðs í Reykjavíkurbréfi Moggans frá sunnudegi sem fylltu mælinn hjá Halldóri, sem boðar frekari skrif um sinn gamla formann.
Halldór skrifar:
„Í Reykjavíkurbréfi gerir þú orð Jóns Hjaltasonar að þínum. Það var ógætilegt og það hefðir þú ekki gert, ef betur hefði legið á þér. Í grein Jóns er mikið af rangfærslum og raunar bein ósannindi. Ég tek dæmi en af nógum er að taka. Jón skrifar til forystu Sjálfstæðisflokksins: Þið réðuð Má Guðmundsson sem seðlabankastjóra ekki einu sinni heldur tvisvar. Hið rétta er, að Már var ráðinn í júlí 2009 en þá var vinstri stjórn í landinu. Már var síðan endurráðinn eftir auglýsingu 2014 og skipaði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í stöðuna. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var þá forsætisráðherra og hafði um það að segja. Rétt er að rifja upp, að hann var formaður Framsóknarflokksins í byrjun árs 2009 þegar allur þingflokkur þess flokks greiddi atkvæði með því að breyta lögum um Seðlabankann til þess að losna við þá seðlabankastjóra sem þá voru. Einn þeirra varst þú, Davíð Oddsson. Margt fellur mér illa í þessu þínu síðasta Reykjavíkurbréfi en verst þó, að þú skulir halda því fram að í þriðja orkupakkanum felist framsal á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins. Það er ekki fótur fyrir þessari fullyrðingu. Og það er raunar athyglisvert, að þú skulir setja hana fram. Þjóðin á það þér að þakka, að samningar tókust um hið Evrópska efnahagssvæði og þú sannfærðir mig og aðra um, að sá samningur rúmaðist innan ákvæða stjórnarskrárinnar. Sömuleiðis fyrsti og annar orkupakkinn. Þar vannstu gott verk og þarft.“
Halldór boðar framhald.