Það er nú svo. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafði bæði gefið til kynna og sagt ýmsum frá að hann ætlaði sér ekki að endurskipa Má Guðmundsson þegar að því kom árið 2014.
Davíð Oddsson rekur hornin í marga þessa helgina.
„Í Reykjavíkurbréfi sem birt var fyrir réttri viku var, eins og endranær, margt viðrað sem leitaði á huga. Þar var vakin athygli á grein eftir Jón Hjaltason sem borist hafði blaðinu. Grein þessi hafði fengið óvenju sterk viðbrögð.
Halldór Blöndal tók það óstinnt upp og sendi bréfritara orð í þriðjudagsblaðinu. Halldór vandar um og segir og endurtekur að bréfritari eigi ekki að skrifa þegar illa liggi á honum.
Þeim sem þekkja Halldór best mun þykja þessi ráðgjöf skondin og úr óvæntri átt,“ skrifar Davíð í Reykjavíkurbréf morgundagsins.
Davíð kann greinilega ekki við afskipti Halldórs af höggum formannsins fyrrverandi í flokkinn og forystu hans. Hann segir Halldór kvarta í framhjáhlaupi yfir því í greininni að Selfyssingarnir og formennirnir Þorsteinn Pálsson og bréfritari skuli ekki hafa komið saman til hins fámenna afmælisfagnaðar. „Þeir í Valhöll virðast hafa gleymt að segja Halldóri að þegar Þorsteinn gekk til liðs við flokk Benedikts Jóhannessonar skráði tölvan, sem er manngleggst á skrifstofunni, þá sjálfkrafa út úr flokknum, báða tvo og fór létt með það.“
„Það hefði því farið betur á að Þorsteinn hefði verið samferða hinum óvæntu utanflokksgestum í afmælið, þótt ekki sé vitað til að hann hafi stutt það með þeim að reynt yrði að koma Geir H. Haarde á bak við lás og slá,“ bætir Daví við.
Aftur snýr Davíð sér að Halldóri, sem var lengst af ráðherra og forseti Alþingis vegna góðvildar Davíðs í hans garð. Halldór launaði greiðann meðal annars að mæla fyrir hinu ótrúlega eftirlaunafrumvarp Davíðs. Hvað um það, aftur til nútíðar.
„En Halldór ákvað sem sagt að gera hina beittu grein Jóns Hjaltasonar ómerkilega með því að velta sér upp úr einu atriði. Finna fölnaða laufblaðið og fordæma skóginn, sem er gamalkunn aðferð en þykir ekki merkileg.
Einhver hefur sagt Halldóri að það sé ónákvæmni hjá Jóni Hjaltasyni að Bjarni Benediktsson hafi skipað Má Guðmundsson tvisvar seðlabankastjóra. Það hafi hann aðeins gert einu sinni.
Það er nú svo. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafði bæði gefið til kynna og sagt ýmsum frá að hann ætlaði sér ekki að endurskipa Má Guðmundsson þegar að því kom árið 2014. Þegar að þessu dró var ráðherrann staddur fyrir norðan, sennilega á Siglufirði, og hringdi í menn og upplýsti þá, og þar á meðal ritstjóra Morgunblaðsins, að vegna óvænts flækjustigs sem upp hefði komið (sem ekki verður farið út í hér) hefði hann ekki náð að gera breytingarnar sem hann hefði margboðað. Hann myndi því skipa Má og skipunarbréfið gæfi til kynna að það yrði til fimm ára. Hins vegar væri sameiginlegur skilningur á því að skipunin stæði í hæsta lagi til eins árs.
Ekki voru endilega allir mjög trúaðir á þennan málatilbúnað. En samkvæmt minnispunktunum sagði ráðherrann efnislega á þessa leið: Þessu mega menn treysta og Már gerir sér grein fyrir þessu og mun birta yfirlýsingu sem í raun staðfestir það sem ég er að segja.
Og mikið rétt. Már bankastjóri stóð við sitt. Þetta birtist: „Af þessu tilefni hefur Már Guðmundsson seðlabankastjóri gefið út eftirfarandi yfirlýsingu:
„Fjármála- og efnahagsráðherra hefur í dag skipað mig í stöðu seðlabankastjóra til fimm ára. Í skipunarbréfi sínu vekur ráðherrann athygli á því að hafin er vinna við heildarendurskoðun laga um Seðlabanka Íslands. Eins og áður hefur komið fram tel ég fulla þörf á þeirri endurskoðun. Seðlabanki Íslands hefur lagt því verkefni það lið sem hann getur og eftir hefur verið leitað. Endurskoðunin mun að mínu mati kalla á einhverjar breytingar varðandi stjórnskipun bankans. Þar eru mismunandi kostir í boði og ég get ekki spáð fyrir um hver endanleg ákvörðun Alþingis verður í þeim efnum. Hitt er mér ljóst að þær breytingar gætu haft í för með sér að endurráðið yrði í yfirstjórn bankans.
Ég tel í þessu sambandi rétt að upplýsa að ég hef í nokkur ár haft hug á að skoða möguleikann á að hverfa á ný til starfa erlendis áður en aldursmörk hamla um of. Ég taldi ekki heppilegt að gera það nú í ljósi ástandsins og verkefnastöðunnar í Seðlabankanum auk fjölskylduaðstæðna. Þetta mun breytast á næstu misserum. Það er því óvíst að ég myndi sækjast eftir endurráðningu komi til slíks ferlis vegna breytinga á lögum um Seðlabanka Íslands á næstu misserum.“ Eins og áður sagði stóð Már við sitt.
Þannig að útkoman varð sú að fjármálaráðherrann de facto skipaði Má tvisvar með því að standa ekki við yfirlýsingar sínar. Engin skýring hefur fengist á því. Þannig að Jón Hjaltason reyndist, kannski óviljandi, hafa haft rétt fyrir sér.
Fölnaða laufblaðið kom þessum skógi ekki við.
Ef ekki hefði legið svona illa á Halldóri Blöndal hefði hann ekki kallað á þessa dapurlegu upprifjun.
Halldór Blöndal gat stundum forðum tíð haft áttavita sem mátti hafa hliðsjón af. En hann ratar illa eftir að notkunin á ættarvitanum óx. Og lendir þá í hverri hafvillunni af annarri. Ættarvitanum fylgdi hann þegar hann kúventi yfir nótt og lagðist á árar með Jóhönnu og Steingrími í Icesave og erlendum kröfuhöfum. Flokkurinn hans og okkar hefur ekki borið sitt barr síðan.
Nú sýna kannanir að allur þorri flokksmanna er á móti orkupakkaruglinu. Enginn hefur fengið að vita af hverju forystan fór gegn flokknum í Icesave. Og nú fær enginn að vita „af hverju í ósköpunum“, svo notuð séu orð formannsins sjálfs, laskaður flokkurinn á að taka á sig enn meiri högg. Halldór Blöndal áttar sig ekki á þessu fremur en Icesave, sem hann hafði barist gegn þar til ættarvitinn tók öll völd. Þessi sami ættarviti sem núna er að ærast í segulstormunum.
Það vantaði ekki neitt upp á það að hann sendi þá gömlum vinum sínum kveðjurnar eftir krókaleiðum vegna þess að þeir mökkuðu ekki með. Þeirra svik voru að fara ekki kollhnís þegar kallið barst frá Steingrími og kröfuhöfum.
Nú hefur bréfritari ekki heyrt í Halldóri lengi. En hann hringir til manna allt í kringum þann með sama hætti og síðast og þeir segja að það liggi þetta líka óskaplega illa á honum núna. Það hlýtur að gera það, því að Halldór er innst inni drengur góður.
Hann ætti því kannski að bíða með þessar hringingar.
En best væri þó að skátarnir segðu honum að ættarvitar hafi aldrei náð nokkurri átt.
Aldrei.“