„Við erum að verða það efnuð þjóð að það er markaður fyrir svona eignir,“ segir Ólafur H. Guðgeirsson fasteignasali í samtali við Moggann. Hann seldi nýverið blokkaríbúð á 365 milljónir króna.
„Það er hæpið að byggðar verði íbúðir eins og í Austurhöfn með slíku útsýni yfir höfnina. Sömuleiðis er ólíklegt að byggðar verði íbúðir með öðru eins útsýni og á Vatnsstígnum. Síðan má nefna sjávarlóðir á Seltjarnarnesi og á Arnarnesi en framboð slíkra lóða gæti aukist eftir því sem höfuðborgarsvæðið stækkar. Sjávarlóðir eru því kannski ekki jafn takmörkuð gæði og útsýnisíbúðir í miðborginni,“ segir Ólafur í Mogganum.
Í frétt Moggans segir einnig: „Íbúðin var áður í eigu Róberts Wessman, forstjóra Alvogen, sem seldi hana við kaup á íbúðum á RÚV-reitnum. Þar áður var íbúðin í eigu Guðmundar Kristjánssonar, sem gjarnan er kenndur við Brim, en athygli vekur að íbúðin er enn fokheld, fimm árum eftir að íbúðaturninn var tilbúinn.“
Þetta er nú meiri hringekjan. Má þá skilja þetta á þann veg að íbúðin sem kostaði 365 milljónir sé aðeins fokheld?
Halldór Benjamín Þorbergsson skrifar í Moggann í dag. Hann gleðst yfir hversu ríkir Íslendingar eru og að þeir keppist við að kaupa hlutabréf: „Aukin þátttaka almennings verður til þess að fólk fylgist betur með fyrirtækjunum og getur gripið tækifæri til að eignast hluti í skráðum félögum þegar þau gefast. Engin ástæða er til að efast um að fólk geri sér grein fyrir því að hlutabréf geta bæði hækkað í verði og lækkað.“
Þannig er umhorfs hjá ríka fólkinu. Rétt er þó að geta þess með 365 milljónaíbúðina að kaupandinn er einkahlutafélag einhvers Hannesar Hilmarssonar fjárfestis.
Það er eins og Ólafur fasteignasali sagði: „Við erum að verða það efnuð þjóð.“