Marinó Njálsson sér í gegnum áform Bjarna og Katrínar. Marinó skrifaði á Facebook:
Nú á að slá ryki augu fólks, svo það haldi að auka eigi réttlæti í þjóðfélaginu. Ætlunin er að leggja fram frumvarp „sem lætur fjármagnseigendur borga útsvar til sveitarfélaga“, eins og kemur fram í fyrirsögn fréttar Kjarnans um málið. Svo þegar texti fréttarinnar er lesinn, þá segir:
„Fjármála- og efnahagsráðherra ætlar að leggja fram frumvarp á yfirstandandi þingi sem felur í sér að þeir sem hafa eingöngu fjármagnstekjur reikni sér endurgjald og greiði þannig útsvar.“
Takið eftir að þessi breyting á bara að ná til þeirra sem „hafa eingöngu fjármagnstekjur“. Allir hinir sem hafa ríkulegar fjármagnstekjur og eru með laun á við lægstu taxta Eflingar og þaðan af lægra en þó einhver laun, lífeyri eða greiðslur úr lífeyrissjóði, þeir falla ekki undir þetta.
Hvað ætli það séu margir, sem hafa engar aðrar tekjur en fjármagnstekjur? Er þá sá í góðum málum, sem gefur upp 10 m.kr. í útsvarsskyldar tekjur, en er með 100 m.kr. í fjármagnstekjur? Þó svo að sveitarfélögin fengju 1,4 m.kr. eða þar um bil í sinn hlut, þá fitna þau nú engin ósköp af því að í mesta lagi nokkur hundruð einstaklingar þurfi að greiða 1,4 m.kr. til þeirra. Nær væri, að ákveðið hlutfall af fjármagnstekjuskattinum, t.d. 4%, rynni einfaldlega til sveitarfélaganna og skatturinn yrði í leiðinni hækkaður í 26%.