Björgvin Guðmundsson skrifar: Meirihluti fjárlaganefndar skilaði áliti sínu um fjárlagafrumvarpið í dag. Það var köld kveðja til öryrkja, blaut tuska í andlit þeirra. Eftir að stjórnvöld hafa dregið í 22 1/2 mánuð að afnema krónu móti krónu skerðingu öryrkja bætir ríkisstjórnin um betur og sker niður um 1,1 milljarð framlög til öryrkja.
Þetta er fáheyrt. Í stað þess að auka framlög til öryrkja og velferðarmála er skorið niður um 1,1 milljarð til öryrkja.
Hvað er hér að gerast? Eru þetta skilaboð til verkalýðshreyfingarinnar um að ríkið hafi ekki efni á því að auka framlög til húsnæðismála eða að lækka skatta á þeim lægst launuðu. Það er engu líkara. En ef svo er mun það þýða nauðsyn meiri launahækkana í staðinn.