Háskóli Íslands í fjárhagskröggum. „Þetta er vond staða sem komin er upp. Við erum að skera niður 120% í kennslumagni,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson prófessor, forseti jarðvísindadeildar Háskólans, en deildin hefur orðið að fella niður nokkurn fjölda námskeiða í meistaranámi nú á vormisseri vegna fjárskorts. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir Magnús Tumi einnig að stjórnvöld hafi ekki staðið við fyrirheit um fjárveitingar til Háskólans og hafi deildin orðið að bregðast við með þessum hætti.
Ríkey Júlíusdóttir, stúdent við Háskólann segir, við Morgunbalðið, að fyrir kosningarnar í haust hafi frambjóðendur stjórnmálaflokkanna komið á fundi með stúdentum og lýst því yfir að vísindagreinar yrðu settar í forgang þegar ný ríkisstjórn yrði mynduð. Þegar nýtt fjárlagafrumvarp var samþykkt hafi komið í ljós að ekki yrði staðið við þau loforð og framundan væri verulega erfitt ár fyrir Háskóla Íslands.
Magnús Tumi segir að á aldarafmæli Háskólans 2011 hafi stjórnvöld lofað því að fjárveitingarnar yrðu að meðaltali sambærilegar við ríkisframlög til háskóla í ríkjum OECD og sagt að stefnt væri að því til lengri tíma að ná sömu stöðu og háskólar í öðrum norrænum löndum búa við. Í trausti þessa hafi Háskólinn skipulag dýrt framhaldsnám og ráðið kennara. Þessar fjárveitingar hafi ekki skilað sér.