Samfélag „…reynt að vekja athygli embættismanna í innanríkisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti á því að framlag ríkisins til kirkjugarða nægi ekki til að þeir geti séð um lögbundnar skyldur sínar. Gerðar hafa verið skýrslur sem sýna svart á hvítu að það er engin leið fyrir þessar stofnanir að halda uppi þeirri þjónustu og umhirðu sem lög gera ráð fyrir. Máli okkar til stuðnings höfum við birt tölulegar upplýsingar sem sýna að skerðing ríkisins nemur tugum prósenta og er raunar vel umfram þær skerðingar sem ríkisstofnanir hafa þurft að taka á sig vegna efnahagshrunsins 2008,“ þetta segir í grein sem Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkur, skrifar ogbirt er í Morgublaðinu í dag.
„Undanfarna daga hafa mörg bréf og tölvupóstar borist til Kirkjugarða Reykjavíkur ásamt myndum af minningarmörkum sem sýna að umhirðu sé mjög ábótavant. Fram kemur í bréfunum mikill sársauki og undrun að ekki skuli vera hægt að hafa þessa hluti í góðu lagi í þjóðfélagi okkar. Undirritaður hefur fullvissað þetta særða fólk um að þeir starfsmenn, sem sjá um umhirðuna, geri allt sem í þeirra valdi stendur til að hafa þessa hluti í lagi. En hvers vegna er umhirðan ekki í lagi hjá Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma (KGRP) sumarið 2014 og hvers vegna hafa starfsmenn ekki tök á að sinna ýmsum verkbeiðnum með skjótum hætti? „
Þórsteinn segir einnig: „Byggingavísitalan hækkaði um 39,5% frá 2008 til 2013 en framlagið hækkaði um 2,9% á sama tíma. Afleiðing þessa er sú að sumarstarfsmenn eru nú um 110 talsins en voru árið 2008 151. Garðarnir á höfuðborgarsvæðinu hafa á sama tíma stækkað um 10 hektara. Á þessu tímabili hafa vélar og tæki ekki verið endurnýjuð eðlilega og veldur það erfiðleikum og töfum vegna bilana.“