„Flokkarnir hafa skapað nýja auðmannastétt með því að vera á móti markaðstengdu auðlindagjaldi í sjávarútvegi. Þeir vilja ráða því hvað fólk borðar með innflutningshöftum og tollum á erlend matvæli. Ráðherrar eru einhuga um að hér skuli vera gjaldmiðill sem flöktir bæði í logni og vindi. Loks telja þeir best að Ísland sé aukafélagi í Evrópusambandinu, án atkvæðisréttar. Ríkisstjórnin sameinast um kyrrstöðuna,“ skrifar Benedikt Jóhannesson Zoëga , stofnandi Viðreisnar, stærðfræðingur og fyrrverandi fjármálaráðherra, í Mogga dagsins.
Aðeins fyrr í greininni rifjaði Benedikt um gullkorn frá Sigurði Inga formanni Framsóknar.
Tónninn í núverandi stjórnarsamstarfi var sleginn þegar formaður Framsóknarflokksins skýrði hvernig flokkarnir náðu saman: „Með því að einbeita okkur að þessum verkefnum sem allir eru meira og minna sammála um að þurfi að fara í þá getum við vonandi náð að uppfylla þær væntingar sem landsmenn hafa til ríkisstjórnar.“ Með öðrum orðum, við tók fjögurra ára starfsstjórn sem ætlaði ekki að breyta neinu.
Næst skal vitna í þessi orð Benedikts: „Þegar loksins kemur eitthvað frá stjórnarflokkunum verður það oft broslegt, til dæmis tillagan um sex ára kjörtímabil forsetans „eins og í nágrannalöndunum“.“
Ágæt grein Benedikts endar svona: „Ísland þarf framsækna ríkisstjórn, stjórn sem vill að þjóðin öll njóti afraksturs af sameiginlegum auðlindum, gerir Ísland að virkum þátttakanda í alþjóðastarfi og hverfur frá einangrunarhyggju, tryggir öllum landsmönnum jafnan atkvæðisrétt, beitir sér fyrir lægra matvælaverði og stöðugum gjaldmiðli. Þjóðin þarf stjórn sem berst gegn veirum og óværum.“